150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:04]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er mér kunnugt um þær vangaveltur og þau erindi sem bárust frá héraðssaksóknara til ráðuneyta, að því er mér skilst kom það í fjölmiðlum í dag, en eftir því sem ég best veit hefur slíkt erindi ekki borist til nefndarinnar. Þingmaðurinn veit kannski betur um það en ég.

Varðandi það sem þingmaðurinn fór yfir, hvort við værum að gera nægilega vel við aldraða og öryrkja, þá fór ég yfir það, bæði í ræðu minni við 2. umr. og eins núna, að við erum ekki komin alla leið. Við erum ekki búin að gera allt en hins vegar hefur margt verið gert. Það eru stigin skref á þessu ári í þá veru að draga úr skerðingum hjá öryrkjum, það hafa verið stigin skref í þá átt að minnka greiðsluþátttöku aldraðra og öryrkja vegna heilbrigðisþjónustu og auðvitað munu aldraðir og öryrkjar eins og aðrir, a.m.k. þeir sem eru með einhver laun eða bætur, njóta góðs af skattkerfisbreytingunum. Breytingin verður mest í lægstu launaþrepunum, skattafslátturinn verður mestur þar. Þetta mun vafalítið skipta einhverju máli. En ég tek undir með hv. þingmanni, auðvitað þurfum við að gera betur og við þurfum að stíga fleiri skref á næstu árum og þessi ríkisstjórn hefur lýst því yfir að hún muni halda áfram á sömu leið. Ég tel hins vegar að það sé eilífðarverkefni, og þingmaðurinn er áreiðanlega sammála mér um það, að halda áfram að bæta velferðarsamfélagið og bæta kjör þeirra sem minnst hafa í samfélaginu. Ég vil meina að við höfum verið að taka markviss skref í þá átt og því ætlum við að halda áfram.