150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[16:08]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég fagna heilsueflingu aldraðra enda flutti Miðflokkurinn breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um að setja 25 millj. kr. í þennan málaflokk. Ég bendi á að hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson greiddi atkvæði gegn tillögu um að setja 25 millj. kr. í heilsueflingu aldraðra. Það sem ég var fyrst og fremst að tala um, hv. þingmaður, er fráflæðisvandi á Landspítalanum sem hefur ekki tekist að greiða úr. Hann snýr sérstaklega að eldra fólki sem er þar við óviðunandi aðstæður og kemst ekki til síns heima vegna heilsuleysis. Það fólk þarf að komast inn á hjúkrunarheimili eða heimili með aðstoð en þau úrræði eru ekki í boði. Það hefur skapað verulegan vanda fyrir þennan tiltekna hóp og auk þess þann vanda á Landspítalanum að legurými þar eru upptekin sem væri hægt að nýta með öðrum hætti. Ég átti fyrst og fremst við þetta þegar ég gagnrýndi heilbrigðisráðherra fyrir stefnuleysi í þessum málum öllum vegna þess að ég hef ekki séð neitt koma frá heilbrigðisráðherra um það hvernig eigi að leysa það brýna vandamál sem þessi fráflæðisvandi er á Landspítalanum.

Ég fagna að sjálfsögðu heilsueflingu aldraðra. Það skiptir máli sem og heimahjúkrunin, það skiptir miklu máli að aldraðir geti fengið að vera (Forseti hringir.) á heimilum sínum sem lengst. Ég styð það heils hugar.