150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[16:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Þótt við ræðum hér um tekjuhlið fjárlaganna verður ekki hjá því komist að byrja á því að setja þá hlið aðeins í samhengi við útgjaldahliðina því að nú hefur ríkisstjórnin kynnt fjárlög — og reyndar fengið þau samþykkt — sem gera ráð fyrir gríðarlegum ríkisútgjöldum miðað við það sem við höfum vanist á undanförnum árum, reyndar svo miklum að á sex árum frá því að núverandi hæstv. fjármálaráðherra lagði fram sín fyrstu fjárlög, sem hann vann mjög vel eins og margt annað, þá hafa útgjöld ríkisins aukist um helming. Ríkisútgjöld á Íslandi hafa aukist um helming á sex árum. Við getum rétt ímyndað okkur ef hægt hefði verið á árinu 2013, við undirbúning fjárlagaársins 2014, að auka útgjöldin um helming hversu miklar breytingar hefði verið hægt að gera, hversu mörgum góðum verkefnum hefði verið hægt að vinna að og hversu miklar kerfisbreytingar gætu hafa átt sér stað í skjóli þeirra útgjalda. Nú er ég ekki halda því fram að það hefði verið skynsamlegt að auka í einu vetfangi ríkisútgjöld um helming en þetta setur hlutina í ákveðið samhengi. Við hljótum að velta fyrir okkur: Hvað hefur samfélagið fengið fyrir þessa miklu útgjaldaaukningu ríkisins? Laun hafa vissulega hækkað umtalsvert og það er allstór hluti af þessu en um leið áminning um mikilvægi þess að ríkið skoði hvernig það ver sínu fjármagni og geri það á skynsamlegan hátt. En hefur almenningur upplifað breytingar á þessum sex árum í samræmi við hin stórauknu ríkisútgjöld? Mér er það til efs. Því miður virðist kerfið áfram ráða för. Fjármagn í það er aukið án þess að kerfið sé um leið lagað, tækifærið nýtt til að nýta fjármagnið sem ríkissjóður hefur til umráða betur. Auðvitað hafa tekjurnar aukist líka en það er þá bara þeim mun mikilvægara að huga að því hvernig þær tekjur nýtast ef menn vilja ekki draga úr tekjuöfluninni, ef menn vilja ekki nota tækifærin sem gefast til að draga úr skattahækkunum heldur þvert á móti, eins og við sjáum nú birtast í þessu fjárlagafrumvarpi, auka á mjög mörgum sviðum álögur á almenning.

Í þessu samhengi er áhugavert að líta til reynslu Íra, nágranna okkar og frænda. Írar hafa lagt áherslu á að draga úr sköttum, draga úr gjöldum á almenning og fyrirtæki, nú um allnokkurt skeið. Þeir eins og Íslendingar fóru illa út úr fjármálakrísunni fyrir rúmum áratug en Írland er nú orðið eitt af ríkustu löndum heims, land sem áður var þekkt sem fátækt ríki í Vestur-Evrópu. Írar eru með meiri landsframleiðslu á mann en til að mynda Sviss, Kúveit, Sameinuðu arabísku furstadæmin og svo mætti lengi telja. Sá árangur náðist ekki með nýjum gjöldum og nýjum sköttum heldur með skilvirku kerfi og hvetjandi skattkerfi. Það fjárlagafrumvarp sem við ræðum nú og höfum afgreitt að hluta er ekki til þess fallið að skapa hvetjandi skattkerfi, framleiðsluhvetjandi kerfi fyrir Ísland, kerfi sem ýtir undir verðmætasköpun. Nei, það er ráðist í hækkun skatta og gjalda mjög víða og ekkert á sérstaklega skynsamlegan hátt. Skattahækkanir geta stundum átt við en mér finnst þær tillögur sem við ræðum hér ekki vera til þess fallnar að skapa jákvæða hvata fyrir samfélagið. Tryggingagjaldið er eitt. Það stendur reyndar til að lækka tryggingagjald og hefjast handa við að standa við loforð stjórnvalda frá því fyrir um fimm árum um lækkun þess gjalds en tryggingagjald þarf að lækka meira. Það er dæmi um skatt sem er mjög letjandi. Sérstakur skattur á að vera með fólk í vinnu, á að ráða fleira fólk, skattur sem leggst þyngst á fyrirtæki sem reiða sig á mannafla og mannvit en síður á fyrirtæki sem komast upp með að reka sína starfsemi með tiltölulega fáu fólki en nýta tæknina. Í öllu talinu um fjórðu iðnbyltinguna og mikilvægi mannvits og nýsköpunar skýtur skökku við að enn skuli svona hátt gjald vera lagt á það að ráða fólk í vinnu og nýta krafta þess.

Svo gerðist það mjög óvænt — mér finnst það óvænt í ljósi reynslunnar — að þessi ríkisstjórn ákvað að taka aftur upp þriggja þrepa skattkerfi. Þetta er óvænt vegna þess að það eru ekki mörg ár liðin, reyndar bara örfá, frá því að hæstv. núverandi fjármálaráðherra, þá líka sem fjármálaráðherra, fagnaði því að hann væri að einfalda skattkerfið og fækka skattþrepunum úr þremur í tvö. Nú er sem sagt verið að flækja skattkerfið aftur með því að fjölga þrepunum og það er kynnt sem skattalækkun vegna þess að allra lægsta þrepið, nýja þrepið, muni bera lægri skattprósentu meðan skattar eru hækkaðir á millitekjufólk í leiðinni. Þetta fyrirkomulag er ekki aðeins til þess fallið að flækja kerfið heldur einnig til að draga úr verðmætasköpun og vinnu og þar af leiðandi er það óskynsamleg ráðstöfun, eins og hæstv. fjármálaráðherra útskýrði ágætlega á sínum tíma þegar hann réðst í einföldun skattkerfisins sem nú er verið að flækja.

Svo eru það öll nýju gjöldin. Ég ætla að byrja á því að nefna svokölluð krónutölugjöld sem hækka nú öll í samræmi við verðbólguvæntingar. Þar sjáum við annan viðsnúning frá fyrri stefnu því ákveðið var á sínum tíma að ríkið ætti að hætta að vera leiðandi í verðbólguþróuninni, hætta að leggja línurnar um verðhækkanir um hver áramót. Það var byrjað á þessu með því fyrst að draga úr krónutöluhækkununum og svo stóð til að ríkið myndi ekki ráðast í krónutöluhækkanir nema hugsanlega í þeim tilvikum þar sem eftir á kæmi í ljós að þær þyrfti til að tryggja ríkinu nægar tekjur til að standa undir þeirri þjónustu sem á við í hverju tilviki. Nú hafa menn aftur snúið í fyrra horf og hækkað þessi krónutölugjöld og það hefur áhrif á verðbólguna og þar með skuldir heimilanna o.s.frv. Ég sé í frumvarpinu að menn gera ekki ráð fyrir mjög miklum beinum áhrifum af þessum gjaldahækkunum. En þá er litið fram hjá því að þegar ríkið leggur línurnar með því að hækka gjöld hefur það strax áhrif langt eftir verðlagskeðjunni, ef svo má segja. Við sáum dæmi um þetta í fyrra og í hittiðfyrra þegar ríkið hækkaði gjöld, þá sáu ýmsir aðilar sig tilneydda til að hækka verð fyrir vöru og þjónustu með vísan í hækkanir ríkisins. Svoleiðis að raunveruleg verðlagsáhrif eru mun meiri en gefið er í skyn í frumvarpinu. Svo bætast auðvitað við ný gjöld. Þau hafa verið að gera það á undanförnum árum. Sérstaka athygli vekja hin svokölluðu grænu gjöld eða grænu skattar sem á einhvern hátt eiga í krafti nafnsins, með áhersluorðinu grænt, að vera betri en aðrar álögur sem lagðar eru á almenning.

Það var áhugavert að heyra hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar hér áðan, hv. þm. Óla Björn Kárason, lýsa því að skattlagning geti verið árangursrík leið til að ná ákveðnum markmiðum í tengslum við hegðun fólks, til að mynda sé urðunarskatturinn ætlaður til að hafa áhrif á hegðun fyrirtækja og einstaklinga. Þetta er alveg ný nálgun hjá Sjálfstæðisflokknum, neyslustýringarskattar, sem ég taldi að þeir væru ekki hlynntir samkvæmt sinni grunnstefnu. En nú er þetta notað sem sérstakur rökstuðningur fyrir skatta- og gjaldahækkunum. Og þetta eru engin smá gjöld, til að mynda í tilviki urðunarskattsins. Ég veit að til stendur að fresta innleiðingu hans en þó mun áfram standa til að ráðast í þessa skattlagningu næst þegar tækifæri gefst til. En eins og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar lýsti — og ég vil þó nota tækifærið og hrósa hv. formanninum fyrir að fresta a.m.k. innleiðingu skattsins; það er sannarlega vert að hrósa því — hefði þessi skattur, þetta gjald, leitt til þess að almenningur, bara á svæði Sorpu, heimilin, þyrfti að greiða 795 millj. kr. til viðbótar við það sem hann greiðir nú og fyrirtækin 1.600 milljarða. Þá er okkur sagt að markmiðið með þessum skatti sé að það muni ekki þurfa að greiða hann á endanum vegna þess að búið verði að ná fram þeirri neyslustýringu og nýju hegðun sem honum sé ætlað að ná. Aftur vekur það athygli í ljósi þess að slík rök hafa yfirleitt ekki átt upp á pallborðið hjá Sjálfstæðisflokknum. En hvað á að gerast í millitíðinni þegar ekki eru til staðar þau úrræði sem menn þurfa til þess að geta fargað sorpi á annan hátt? Hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi að vísu að þessi úrræði væru ekki til staðar en þau verða ekki til staðar á næsta ári. Þau verða ekki tilbúin þegar ríkisstjórnin hyggst keyra í gegn þessar gjaldahækkanir. Í raun er hér ekki um að ræða tekjuöflun fyrir ríkið, eins og bent var á, heldur refsiskatt, enn einn refsiskattinn á almenning fyrir það einfaldlega að vera til, fyrir það að kaupa sér mat og aðra hluti sem óhjákvæmilega leiðir til þess að menn þurfa að losa sig við sorp eða fyrir að komast leiðar sinnar, fara á milli staða. Það er náttúrlega enn verið að auka á öll möguleg gjöld fyrir það að fara á milli staða og hugmyndaauðgin í þeim efnum er mikil, hefur verið lengi en eykst enn. Það eru gjöld og skattar með alls konar nöfnum, kílómetragjald, sérstakt kílómetragjald, eldsneytisgjald og sérstakt eldsneytisgjald, kolefnisgjald og hin og þessi grænu gjöld sem leggjast á almenning fyrir það að vera til. Þetta er ekki skynsamlegt, herra forseti. Þetta er ekki góð leið til að ná markmiðum, til að mynda í umhverfismálum. Þetta er leið sem fyrst og fremst bitnar á tekjulægri hópum samfélagsins vegna þess að eðli svona gjalda er í raun að vera nokkurs konar nefskattur. Það þurfa allir að borða, það þurfa allir að kaupa sér ákveðnar nauðsynjar, það þurfa allir að henda sorpi, það þurfa allir að komast leiðar sinnar, bæði tekjulágir og -háir, en gjaldið leggst jafnt á alla eftir því sem menn þurfa að kaupa sér eldsneyti, bifreiðar eða aðrar vörur.

Hér er um afskaplega vinstri sinnaða og órökrétta skattstefnu að ræða að mínu viti. Ég hafði reyndar hugsað mér að telja upp nokkrar af þeim gjalda- og skattahækkunum sem kynntar eru hér en ég sé að ég mun ekki hafa tíma til þess. Ég verð að láta mér nægja að ræða þetta almennt. Heildarmyndin er sú að á sama tíma og þessi ríkisstjórn kynnir metútgjöld ríkisins, á sama tíma og hún hefur aukið ríkisútgjöld um helming á sex árum, á sama tíma og hún rekur ríkið með halla í fyrsta skipti í sjö ár, er hún að leggja á ný og óskynsamleg gjöld og skatta sem eru til þess fallin að draga úr verðmætasköpun og refsa öllum almenningi í landinu fyrir það eitt að vera til.