150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[17:10]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er þá í annað skipti sem ég spyr hv. þingmenn Miðflokksins hvort þeir styðji Parísarsáttmálann og að Ísland taki þátt í þeim markmiðum sem þar eru fram sett og enn hef ég ekki fengið svar. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson getur enn þá svarað mér hvort það sé sýn hans og stefna Miðflokksins að standa við Parísarsamkomulagið og standa við þær skuldbindingar sem Ísland axlaði með því að skrifa undir Parísarsamkomulagið. Ef mig misminnir ekki var hv. þingmaður einmitt forsætisráðherra á þeim tíma sem Parísarfundurinn átti sér stað og tekin var ákvörðun um þetta. Ég verð að viðurkenna, virðulegur forseti, að mér hefur þótt erfitt að átta mig á því hver sé sýn Miðflokksins þegar kemur að umhverfismálum og ég er eiginlega farin að hallast að því að þeir styðji ekki Parísarsamkomulagið og það sem þar kemur fram því að ég hef virðist alla vega ekki enn þá hafa getað fengið það fram í þessum ræðustól að svo sé. Núna síðast var einmitt talað um gas og olíu. Þegar ég spurði hv. þm. Birgi Þórarinsson að þessu um daginn benti hann á hvort við ættum ekki að skoða hvað Indverjar og Kínverjar væru að gera. Allt stórar og miklar spurningar en spurningin er: Styður Miðflokkinn Parísarsamkomulagið og að Ísland standi við þær skuldbindingar sem þar komu fram?