150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

frumvarp um Menntasjóð námsmanna.

[15:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og þann áhuga sem hann sýnir yfir höfuð menntamálum og hinum nýja Menntasjóði námsmanna. Nú er það svo að við erum búin að fara yfir mjög margar sviðsmyndir um ýmis kjör, hvort viðkomandi námsmaður sé einhleypur, hvort hann eigi börn eða hver staðan sé. Hann kemur nánast undantekningarlaust betur út í nýja kerfinu. Í fyrsta lagi er það vegna þess að við erum með 30% niðurfellingu á höfuðstóli lánsins. Það skiptir engu máli hvernig efnahagurinn er á þeim tímapunkti. Í öðru lagi vil ég nefna að vaxtakjörin eru þau bestu, vaxtakjör ríkissjóðs Íslands. Við vitum að þau geta líka lækkað eins og þau geta hækkað. Ef ég vissi nákvæmlega hver þróun vaxta yrði og hver framtíðin væri væri nú ansi gaman að vera mennta- og menningarmálaráðherra Íslands en svo er að sjálfsögðu ekki. Við erum hins vegar að búa til kerfi sem er mun betra en gamla kerfið. Þú skuldar mun minna vegna 30% niðurfellingar og þeirrar hagfelldu stöðu sem ríkissjóður Íslands býr við í dag. Ríkissjóður Íslands hefur verið að greiða niður skuldir og styrkja stöðu sína stöðugt síðustu tíu árin. Þess vegna hefur ávöxtunarkrafan verið hagstæð fyrir ríkissjóð og námsmenn njóta þess. Kjör þeirra verða mun betri í nýja kerfinu og ég er mjög ánægð með hvernig það er að koma út.