150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

ráðningarfyrirkomulag hjá RÚV.

[15:34]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda, hv. þm. Þorsteins Víglundssonar, barst forseta ósk um að hann myndi breyta skráningu og beina fyrirspurn til annars ráðherra en hann hafði tilkynnt inn. Forseti féllst á þetta og leyfði hv. þingmanni að beina fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra í staðinn fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra. Í ljósi þess sem fram kom síðar, að tilefnið var nýtt til þess að fylgja eftir fyrirspurn sem þegar hafði verið borin upp og þegar hafði verið svarað, lítur forseti svo á að hann hafi gert mistök.

Forseti fellir hér með þann úrskurð að ekki verði hægt að breyta skráningu á fyrirspurn og til hvaða ráðherra hún skuli beinast eftir að óundirbúnar fyrirspurnir eru hafnar af ástæðum sem ég held að allir hljóti að sjá ef þeir fara að hugleiða málin. Þessi fyrirspurnatími er ekki hugsaður þannig að hann breytist í kappræður og menn geti valið sér fyrirspyrjendur eftir því hvernig umræðunni vindur fram. Þess vegna ber mönnum að skrá þá inn um leið og þeir biðja um orðið.