150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:58]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir tók eiginlega ómakið af mér og spurði um það sem ég ætlaði að spyrja um. (Gripið fram í.) Það er engu að síður hvor sinn hluturinn, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, að tala um dýrðarljóma og eitthvert fullkomið kerfi eða að grafa undan því og segja að það sé ómögulegt. Það er mikilvægt, ekki síst fyrir þingmenn sem eru einn hluti af ríkisvaldinu, að ríkisvaldið tali ekki niður dómskerfið með þeim hætti sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson gerir. Ég geri ekki neina kröfu til þess að hv. þingmaður sé sammála eða hafi mikla trú á dómskerfinu eða telji það ekki lélegt, en við vitum samt að við erum með þrískiptingu. Þessum hluta er falið ákveðið verkefni og við skulum bara gagnrýna það málefnalega en ekki tala um einhvern dýrðarljóma og að menn verði að taka öllu sem fullkomnu sem þaðan kemur. Það er ekkert fullkomið sem þaðan kemur frekar en annars staðar.

Það sem ég vildi líka tala um er það sem fram kom hjá hv. þingmanni um ríkislögmann. Ríkislögmanni er falið ákveðið verkefni. Honum ber að vinna það eftir bestu getu. Þó að ríkislögmaður geri ýtrustu kröfur þýðir það ekki að hann geti ekki samið um bætur. Þannig gerist það. Þegar kröfur eru gerðar eru gerðar ýtrustu kröfur og svo semja menn. Það að gera einhverjar aðrar kröfur í máli sem hann höfðar ekki sjálfur heldur gagnaðilinn fyndist mér ábyrgðarleysi af hálfu ríkislögmanns og hann gerði það ekki.