150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[16:26]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú gerist það á tiltölulega skömmum tíma að ég get tekið undir heilmikið sem bæði hv. þm. Björn Leví Gunnarsson segir og líka hv. þm. Helga Vala Helgadóttir. Það gerist ekki á hverjum degi.

Ég er alveg sammála því að það sé allt í lagi að leggja fram eitthvert frumvarp eða setja lög sem ná almennt yfir það hverjir eigi hugsanlega rétt á bótum o.s.frv. Ég tek algjörlega undir það. En um leið og menn setja sérstök lög um einstakt mál er alltaf hætta á að menn komi hingað eftir nokkur ár og segi: Heyrðu, bíddu, af hverju gildir ekki það sama um mig? Þá ganga ekki upp í mínum huga þau rök að þetta mál sé svo gamalt og hafi hvílt á þjóðinni. Mér finnst jafnt verða yfir alla að ganga. Þess vegna hef ég sagt að þetta sé hættulegt fordæmi. Það er alveg rétt að ríkið og stjórnvöld verða að semja um bætur nánast vikulega eða mánaðarlega en það verður að vera gert á réttum forsendum, að menn stjórnist ekki af geðþótta. Hérna finnst mér eins og verið sé að gefa mönnum svolítið frjálst spil með það að semja um hvað sem er, jafnvel þótt sérfræðingurinn, ríkislögmaður, segi: Heyrðu, bíddu, þetta er ekki alveg svona einfalt. Það er ekki víst að þetta gangi upp og þetta er ekki í samræmi við dómaframkvæmd, en pólitíkin ætlar bara að leysa þetta og losna við þetta.

Þannig lítur þetta út frá mínum bæjardyrum séð. Það finnst mér ekki góður bragur og ég tek undir nánast hvert orð sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sagði um málið.