150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

málefni BUGL.

[15:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn og vil segja að áhersla stjórnvalda á geðheilbrigðismál hefur aukist umtalsvert síðustu misseri og það er ekki bara vegna þess að við þurfum á því að halda á Íslandi heldur vegna þess að það er ákall alls staðar að um að þjóðir heims leggi meiri áherslu á geðheilbrigðismál almennt. Fjármagn til geðheilbrigðismála miðað við fjármagn til annars konar heilsu, ef svo má að orði komast, hefur verið hlutfallslega minna en efni standa til.

Í samræmi við þetta og á grundvelli þeirrar sýnar höfum við í ráðherratíð minni í heilbrigðisráðuneytinu aukið fjármagn til geðheilbrigðismála almennt. Við höfum aukið fjármagn umtalsvert inn í heilsugæsluna um allt land til að bæta geðheilbrigðisþjónustu á fyrsta stigi, auka möguleika á því að börn og ungmenni geti leitað til sálfræðinga strax á heilsugæslunni. Geðteymi hafa verið sett á laggirnar um allt land og við ljúkum væntanlega við mönnun á þeim í lok þessa árs.

Ég vil líka nefna, af því að hv. þingmaður bendir sannarlega og með réttu sérstaklega á stöðu barna, að undir forystu hæstv. félags- og barnamálaráðherra hefur verið efnt til mjög víðtæks samráðs, bæði þverpólitísks samráðs við Alþingi og líka við fleiri ráðherra, dómsmálaráðherra, menntamálaráðherra og þá sem hér stendur, í því að fella niður múra milli ráðuneyta og stofnana í þágu þess að bæta þjónustunet fyrir börn og það á líka við um barna- og unglingageðdeild Landspítala.