150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:03]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Með þessari spurningu var hv. þingmaður raunverulega að biðja mig um að tala í nokkrar klukkustundir, ef ég ætti að svara efnislega því sem kom fram, hér voru margar stórar spurningar. Meginforsenda Hvassahraunsskýrslunnar er að nauðsynlegt sé að hafa tvo flugvelli á suðvesturhorninu. Það er stór breyting frá því sem áður hefur komið fram í opinberum gögnum og skýrslum frá ríkinu, þessi ábending, hún er gríðarlega stór og mikilvæg. Ég gerði athugasemdir um helgina varðandi veðurfarsrannsóknir. Alþjóðaflugmálastofnunin ICAO talar um að a.m.k. fimm ár séu tekin til í tímalínu varðandi veðurfarsrannsóknir og oft er það meira. Við þekkjum það sem höfum verið lengi í þessu á Íslandi að þetta gengur í sveiflum á mörgum árum þannig að menn get lent á góðu árunum á tveimur árum. Það þarf að horfa yfir mjög löng tímabil varðandi þetta. 300 milljarðar eru há upphæð og í skýrslunni er talað um millilandaflugvöll og innanlandsflugvöll sameiginlega, að það séu að lágmarki 300–380 milljarðar. Þar fyrir utan er kostnaður flugrekenda af því að færa búnað og annað inn á svæðið. En ég benti á það um helgina að þetta er u.þ.b. fimmfalt það sem talað er um í sambandi við nýjan Landspítala í Reykjavík. Þetta er ein stærsta framkvæmd Íslandssögunnar. Þetta er svipuð framkvæmd ef ekki stærri en álverið fyrir austan, hjá Alcoa, Kárahnjúkastífla og Fljótsdalsvirkjun til samans. Þetta er gríðarlega há tala. Við sjáum hve erfitt við höfum átt með að byggja einn spítala til að sjá stærðargráðuna í stóra samhenginu. Þetta er gríðarlega stórt verkefni. Ég næ kannski hinum spurningunum í síðara svari.