150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:35]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég varð ekki var við neina eiginlega spurningu eða fyrirspurn til mín í þessu en ég get tekið undir það sem hv. þingmaður sagði og ég held að við séum bara almennt nokkuð sammála um þennan málaflokk. Í öllu falli þá, eins og ég sagði áðan í öðru andsvari, verður alltaf dýrt að viðhalda góðu samgöngukerfi á Íslandi og ef við gerum okkur grein fyrir því og setjum nógu góðar áætlanir og byggjum upp með nógu skýrum hætti þá getum við alveg náð yfir þetta.

Ég veit svo sem að fyrra svar mitt við hv. þingmann mun kannski leiða til þess að ég verði ekkert allt of vinsæll hjá borgarfulltrúum mínum. En það er allt í lagi vegna þess að við erum í ákveðnu samtali um hvernig við eigum að haga þeim hlutum. Ég hef fullan skilning á löngun og vilja fólks til að losna við Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni. En ég hef líka fullan skilning á því að það sé nauðsynlegt fyrir sjúkraflug, fyrir áætlunarflug innan lands, fyrir kennsluflug, einkaflug og allar hinar týpur flugs sem eru til staðar, að það sé annar flugvöllur en Keflavíkurflugvöllur á suðvesturhorninu sem geti annast þessa umferð. Ég skil að fólk sé ekkert endilega viljugt til að gefa Reykjavíkurflugvöll upp á bátinn fyrr en það er komið eitthvað sem getur komið í staðinn fyrir hann. Lausnin í því er kannski að skoða Hvassahraun. Ég held að Hvassahraun gæti mögulega verið lausnin. Ég hef líka heyrt miklar og eðlilegar áhyggjur af Hvassahrauni en við finnum lausn ef við leitum. Í þessu máli bið ég um að fólk komi sér upp úr endalausum skotgröfum og finna lausnina vegna þess að annars erum við bara að fara að rífast um þetta áfram í 20–40 eða 100 ár í viðbót og við megum ekki við því heldur.