150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

desemberuppbót.

[15:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hann svaraði sjálfur í fyrirspurnatíma þegar ég spurði hann að því hvernig stæði á því að einn ákveðinn hópur fengi skertan jólabónus, hvernig stæði á því að aðeins væri tekinn einn hópur út og skertur hjá honum jólabónusinn, sá hópur sem fær lægsta jólabónusinn. Við horfum upp á það að við þingmenn fáum fullan jólabónus, óskertan, nema bara skattaðan. Það fá hann allir nema þessi eini hópur. Þá er verið að nota allar tekjur til að skerða jólabónusinn. Fyndist honum þetta eðlilegt? Hann svaraði að þetta væri bara vegna þess að það hefði viðgengist undanfarin ár. Er það þá eðlilegt að svona hlutir viðgangist ár eftir ár? Þá hlýtur hann að líta sömu augum á þá sem þiggja mataraðstoð vegna fátæktar. Þeir eigi að bíða ár eftir ár. Ég spyr: Er hann ekki með neinar lausnir á þessu? Á þetta að vera svona í boði ríkisstjórnar eftir ríkisstjórn?