150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að bæta í hina raunverulegu umræðu um störf þingsins eftir þá umræðu sem átti sér stað fyrr í dag. Mig langar engu að síður að gera það. Það er orðið alveg til skammar hvað mál koma seint fram í þinginu. Á forgangslista ríkisstjórnarinnar til lúkningar á þessu þingi telst mér til að séu ein 17 mál og af þeim komu 14 fram eftir mánaðamótin október/nóvember. Þingið hafði fengið fæst þeirra til umræðu eða umfjöllunar í nefndum þegar nefndavika, sem átti að bera hitann og þungann af umræðu á haustþingi, rann upp.

Helmingurinn af þessum málum kom fram eftir miðjan nóvember. Það eru rétt rúmlega þrjár vikur síðan þau fyrstu voru lögð fram. Mörg þeirra koma síðan fram með afbrigðum núna.

Þetta er ótækt og við þekkjum afleiðingarnar og þann kostnað sem hlýst af ítrekuðum mistökum sem hér eru gerð í lagasetningu. Það er alveg ótækt að þingið fái ekki nauðsynlegan tíma til að ræða þessi mál, kalla eftir umsögnum, fá gesti til skrafs og ráðagerða og geta fjallað af efnislegri dýpt um þau mál sem þingið á að klára. Þetta lýsir ótrúlegu virðingarleysi framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarþinginu og þetta er að versna. Sjálfsagt hefur sjaldan jafn hátt hlutfall mála komið fram jafn seint og nú. Sem fyrr segir þekkjum við afleiðingarnar af því áður og ég verð að viðurkenna að mér líður stundum eins og framkvæmdarvaldið meðhöndli þennan sal eins og einhvers konar ljósritunarstofu sem eigi einfaldlega að taka við málunum eins og þau koma búin af hendi framkvæmdarvaldsins, stimpla þau og afgreiða. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð, þetta er ekki boðlegt fyrir virðingu Alþingis.