150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[16:12]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Siðmennt hefur engar skyldur lögum samkvæmt. Fyrir utan það er þetta alveg vonlaus félagsskapur að mínu viti og einhver sá vitlausasti í landinu nú um stundir. Látum það samt liggja á milli hluta.

Hvernig samkomulagið er? Menn hanga í því hvað er lélegt samkomulag eða gott samkomulag. Við erum að styðja og vernda þjóðkirkjuna. Þetta samkomulag er gert með þeim hætti og er bara einn hluti af því, fyrir utan það að ríkið fær fullt af eignum á móti (Gripið fram í.) — upp á sennilega hátt í 100 milljarða. (Gripið fram í.) Það að vera að vandræðast með þetta, hv. þingmaður, er alveg ótrúlegt. Við eigum bara að horfa á það að við erum að styðja og vernda þessa þjóðkirkju. Hún hefur skyldur umfram aðra söfnuði, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þetta er kristinn söfnuður. Við erum kristin menningarþjóð og svo eiga menn líka bara að lesa Biblíuna þó að þeir hafi enga trúarsannfæringu, þótt ekki væri nema til að læra íslensku. [Hlátur í þingsal.] Það lærir enginn íslensku (Forseti hringir.) sem les ekki Biblíuna, hv. þingmaður.