150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við erum hérna núna með ríkisstjórn sem hreykir sér af góðum árangri í umhverfismálum, ríkisstjórn sem leggur mikla áherslu á friðlýsingar sem gjarnan byggja á rúmlega áratugagömlum lögum. Það er fínt, en að sama skapi virðist skorta hugrekki til að grípa til alvöruaðgerða á sviði loftslagsmála. Það er vissulega jákvætt og gott að tala um hlutina en það kemur líka að þeim tímapunkti að það er beinlínis skaðlegt að láta duga að tala um hlutina ef ekki fylgja aðgerðir.

Sænska unglingsstúlkan Greta Thunberg sem hefur ýtt af stað umræðubylgju og hvatningu til aðgerða í umhverfis- og loftslagsmálum um allan heim hefur nú verið valin manneskja ársins af tímaritinu Time. Hún hefur m.a. ítrekað bent á að orðum þurfi að fylgja aðgerðir, m.a. með því að afþakka ýmiss konar heiður sem henni hefur verið sýndur og krefjast þess frekar að farið verði í aðgerðir. Það er nefnilega þannig að við þurfum uppbrettar ermar en ekki innantóm orð. Aðgerðaleysi þeirra sem skilja og viðurkenna þörfina er beinlínis hættulegra en aðgerðaleysi þeirra sem afneita henni.

Við eigum hér á landi líka fólk sem krefst aðgerða, ungt fólk sem hefur komið saman vikulega fyrir utan þinghúsið okkar með kröfur sínar. Við eigum að hlusta á þessi orð og svo eigum við að grípa til aðgerða. Þeir eru reyndar til sem þykir holur hljómur í gagnrýni unga fólksins og vísa í að eldri kynslóðin hafi hreyft sig meira, hún hafi mengað minna, ekki verið jafn miklir bruðlarar, ekki verið jafn upptekin af neysluhyggjunni, að umbúða- og plastsamfélagið hafi ekki verið þekkt á uppvaxtarárum hennar, það hafi verið mjólkurpóstur í staðinn fyrir mjólkurfernu og svona mætti lengi telja. Ég óx úr grasi á þessum tíma og ég get alveg tekið undir þetta. En af hverju var það? Það er það umhverfi sem mér og jafnöldrum mínum var þá boðið upp á af fullorðna fólkinu. Hvernig umhverfi bjóðum við síðan börnum og unglingum í dag, við sem nú erum orðin fullorðin? Það er það sem þetta mál snýst um.

Við stöndum núna frammi (Forseti hringir.) fyrir því að svara hver rísi undir ábyrgðinni sem á okkur hvílir. Það er eiginlega búið að svara því. Það eru börnin og unglingarnir. Þess vegna er frábært að sjá Gretu Thunberg, stúlkuna sem er að breyta heiminum, verða fyrir valinu sem manneskja ársins hjá Time. Nú er kominn tími til að við klárum málið og förum í alvöruaðgerðir.