150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[17:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að ég hafi skilið afstöðu hv. þingmanns fullkomlega í tengslum við samband ríkis og kirkju og þá á ég ég sérstaklega við sambandið sem kemur fram í stjórnarskrá. Hv. þingmaður sagði nefnilega að í stjórnarskrá væri trúfrelsi og jafnræði trúarbragða eða trúarstofnana tryggt og því er ég ósammála. Það er jafnræði fyrir lögum í 65. gr. sem oft eru upp á kant við 62. gr., þ.e. þjóðkirkjuákvæðið sjálft. Það hefur oftar en einu sinni komið í hlut dómstóla að vega og meta í raun og veru hvor greinin trompi hina. Það þykir mér vera merki þess að það sé mótsögn fólgin í því að hafa sérstaka þjóðkirkju sem nýtur sérstakra forréttinda umfram aðra trúarsöfnuði á sama tíma og það á að vera jafnræði fyrir lögum.

Mér heyrist afstaða þingmannsins ekki vera sú að það beri að afnema þessa sérstöðu. Hv. þingmaður fór sérstaklega út í þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012 og af sömu ástæðu, þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu, myndi t.d. ég greiða atkvæði — og vona að ég fái að greiða atkvæði — með frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár sem inniheldur þjóðkirkjuákvæði vegna þess að ég trúi því að það eigi að klára það mál. Aftur á móti er ég einlægt þeirrar skoðunar að það sé með öllu óeðlilegt og óásættanlegt í raun og veru að eitt trúfélag fái sérstakan stuðning. Mig langar að fá skýrt svar frá hv. þingmanni um það hvort hann aðhyllist það. Óháð skyldu hans til þess að framfylgja þjóðarviljanum samkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 langar mig að vita hvað þingmanninum sjálfum finnst sem einstaklingi um þetta skrýtna samband í 62. gr. stjórnarskrárinnar. Ég nefni það sérstaklega vegna þess að hér fara menn fögrum orðum um þjóðkirkjuna og starf hennar. Það er gott og blessað. Ég geri engar athugasemdir við það. Mér finnst það bara ekki koma því við hvort það eigi þá að vera sérstakur stjórnarskrárlegur stuðningur. Það er fullt af öðrum trúfélögum sem sinna líka frábæru starfi, kristnum og íslömskum, (Forseti hringir.) trúlausum og guð má vita hvað.