150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[18:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það vakti athygli mína að hv. þingmaður nefndi máli sínu til stuðnings um tilvist þjóðkirkjunnar og sérstaka vernd hennar í stjórnarskrá þjóðaratkvæðagreiðslu sem var haldin árið 2012 þar sem 57,1% aðspurðra sagði já við spurningunni, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“

Sleppum öllu karpi um orðalag spurningarinnar, við getum vonandi farið yfir það seinna. Ég er þeirrar skoðunar að þegar haldnar eru þjóðaratkvæðagreiðslur eigi niðurstöðurnar að gilda. Þess vegna er ég t.d. meðflutningsmaður á frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár þar sem er þjóðkirkjuákvæði, það sama ákvæði og mér er sjálfum svo innilega í nöp við. Ég tek þó þátt í að leggja frumvarpið fram og myndi greiða atkvæði með þeirri nýju stjórnarskrá vegna þess að þannig túlka ég þjóðarviljinn samkvæmt 1. lið þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu. Í sömu þjóðaratkvæðagreiðslu og hv. þingmaður nefndi sögðu 66,94%, þ.e. 67%, já við spurningunni, með leyfi forseta:

„Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“

Mér finnst áhugavert hvernig sumir stjórnmálamenn nýta sér þjóðaratkvæðagreiðslur, ráðgefandi, bindandi eða hvaðeina, þegar það vill svo til að almenningur er sammála þeim, yfirleitt að þeirra eigin mati. Til dæmis lagði hv. formaður Miðflokksins á sínum tíma til þjóðaratkvæðagreiðslu um verðtryggingu, reyndar algjörlega óumbeðinn af kjósendum. Hvernig stendur á því að hv. þingmaður kemur hingað og beitir fyrir sig í máli sínu þjóðaratkvæðagreiðslu sem hann hunsar samt að öðru leyti, ef ég skil hann rétt? Eða er það þannig að hv. þingmaður myndi taka undir það með þjóðinni að setja nýja stjórnarskrá grundvallaða á frumvarpi stjórnlagaráðs? Ef ekki, hvers vegna ekki, fyrst hann kemur hingað og segist vilja virða þjóðarviljann?