150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[18:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Afsakið, en hefur Alþingi ekki fjárveitingavaldið? Af hverju er það í höndum framkvæmdarvaldsins að semja um hlutdeild í einhverri heildarupphæð sem er í viðbótarsamkomulagi án þess að Alþingi hafi neitt um það að segja? Ég hef ekki hugmynd um hvernig skiptingin er um lögbundin verkefni, eignatilfærsluna, atriðin varðandi stjórnarskrána í þessu viðbótarsamkomulagi, ekki minnstu hugmynd, og ég held að enginn hérna inni hafi það, enda stendur það hvergi.

Varðandi spurninguna um hvort þessi lög þurfi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þetta sé breyting á kirkjuskipun tel ég nei ekki vera nægilegt svar eða rökstuðning. Af hverju er það ekki? Það er tvímælalaust verið að gera kirkjuna sjálfstæðari að einhverju leyti. Það hlýtur að vera ákveðin grundvallarbreyting á núverandi skipun. Nú er bara vika síðan frumvarpið var lagt fram. Við eigum ekki von á því að þetta mál fari í eðlilegt umsagnarferli á þessum tíma. Ég veit ekki hvað (Forseti hringir.) við eigum eiginlega að geta gert úr þessu máli miðað við umfang þess á þeim tíma, samkvæmt þeim gæðastaðli sem við ættum að vinna málið eftir.