150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[22:21]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Nei, það er einmitt rétt að styðjast við verðtryggða vexti því að það má ekki gleyma því að hin árlega greiðsla er verðtryggð, þ.e. hún tekur breytingum í takt við verðlag á ári hverju og þar af leiðandi er rétt að afvaxta þá tölu með verðtryggðum vöxtum sem ríkissjóður greiðir, ekki óverðtryggðum vöxtum, annars værum við að greiða fyrir verðbólguna tvisvar. Þetta er bara grundvallaratriði í fjármálafræði. Það verður auðvitað að horfa til þess líka að þegar hv. þingmaður nefnir 7% óverðtryggða vexti — og svo getum við talað um hvað verðtryggðir vextir voru þá á þeim tímapunkti — er það kannski líka einmitt kjarni málsins að nú hafa vextir lækkað mjög mikið frá 1998 og ekki getum við ætlað ríkissjóði að greiða fasta vexti, hvort sem er verðtryggða eða óverðtryggða, til eilífðarnóns eins og þeir voru 1998 þegar það er búið að vera samfelld vaxtalækkun allar götur síðan. Það geta ekki verið góðir samningar fyrir ríkissjóð að bera slíka vexti fasta. Ég held að við hljótum að geta verið sammála um það, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) að þetta kirkjujarðasamkomulag sem einhvers konar eignaviðskipti getur bara ekki staðist. Ef hv. þingmaður væri tilbúinn að kaupa af mér eign á þessum kjörum skal ég glaður selja honum hana.