150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[11:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög áhugavert og ég geri einmitt athugasemdir við jafnræði í þessari uppsetningu, að gera þetta fyrir þjóðkirkjuna núna og svo kannski einhvern tímann seinna fyrir önnur lífsskoðunarfélög. Þar er tvímælalaust ójöfnuður og það þarf að gera þetta á sama tíma fyrir þau öll ef það á að haga því þannig.

Mér finnst þetta mál mjög erfitt út af viðbótarsamkomulaginu sem frumvarpið byggir á af því að ég hef ekki hugmynd um af hverju þessi upphæð sem er í viðbótarsamkomulaginu var valin, ekki minnstu hugmynd. Ég veit ekkert um það hversu mikill hluti af henni er vegna eignatilfærslunnar. Ég veit ekkert um það hversu mikill hluti er til þess að styðja og vernda þjóðkirkjuna samkvæmt stjórnarskrá. Ég veit ekkert hversu mikill hluti af þessari upphæð er þjónustukaup og hvaða þjónusta liggur þar undir. Eins og kom fram í umræðunni í gær þá er það þannig þegar við fáum ýmsa þjónustu hjá þjóðkirkjunni að við borgum líka aukalega. Ég hélt að við værum búin að borga launin en nei, við þurfum að borga meira í skírnum og fermingum eða hvað það nú er. Þá klóra ég mér í hausnum og spyr bara þessarar einföldu spurningar: Þarna er launasamningur, er fólk þá ekki í fullri vinnu við að gera nákvæmlega það sem núna er rukkað fyrir? Mér finnst það bara vera lágmarkskrafa þingsins, fyrst við eigum að samþykkja fjárheimildir í þetta, að geta spurt og tikkað við: Já, það er þessi þjónusta sem við erum að kaupa. Og já, það er þessi þjónusta sem er verið að veita. Og já, það er eftir þeim gæðakröfum sem við gerum. Þetta á að eiga við um alla starfsemi hins opinbera eins og hún leggur sig.