150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[13:21]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágætiságrip af sögunni hjá hv. þingmanni, það er gaman að fá þessa yfirferð og ekki síst gaman að heyra loksins Miðflokksmann segja með skýrum hætti hver afstaða hans er til frumvarpsins. Mér hefur fundist það vanta. Ég hef heyrt margar fínar ræður en ekki heyrt fyrr en nú raunverulega afstöðu.

Mig langar til að forvitnast um nokkra sögulega punkta úr því að hv. þingmaður talar svolítið mikið um kristni í víðum skilningi og sögu þjóðkirkjunnar. Þjóðkirkjan var ekki þjóðkirkja eins og við þekkjum hana í dag fyrr en í rauninni eftir siðaskipti og jafnvel síðar ef við tölum um lögformlega strúktúrinn eða það fyrirbæri sem við höfum í dag. Þá vaknar hjá mér spurning — ég veit ekki hvort þetta sé kvikindisleg spurning — hvort hv. þingmaður geti fallist á þá söguskýringu að við siðaskiptin þar sem eignir kaþólsku kirkjunnar voru í rauninni gerðar upptækar og fluttar yfir til hinnar nútíma þjóðkirkju, hvort það myndi teljast sem eignaupptaka í einhverjum skilningi frá kaþólsku kirkjunni sem á náttúrlega sitt aðsetur í Vatíkaninu. Þetta er ein pæling.

Svo er annað varðandi hugmyndina um að kirkjurnar séu eignir guðs, hvort hv. þingmaður hafi lesið sér til um dóm hæstaréttar á Indlandi sem féll fyrir um tveim mánuðum þar sem úrskurðað var í deilumáli sem sneri annars vegar að hofi hindúa, hvort það var hof Ganesha, og svo (Forseti hringir.) mosku. Deilan snerist um það hvort (Forseti hringir.) guðinn sem þar átti í hlut hafi átt landið sem er undir áður en moskan var byggð.