150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[13:28]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég get í sjálfu sér ekki brugðist við þessum Indlandsvinkli hv. þm. Smára McCarthys með meiri eða dýpri hætti en ég gerði áðan með þessu örstutta orði: Nei, þetta er bara mál sem ég þekki ekki. En kannski er í spurningu hv. þingmanns engu að síður falin hvatning til mín að kynna mér málið og ég geri það. Það er auðvitað áhugaverð staðreynd að þarna skuli fara saman ártal sem verið er að fjalla um í þeim dómi við svipað leyti og við sem þjóð erum að ganga í gegnum siðaskipti.

Eins og fram kom í máli mínu í upphafi vegna umræðu hv. þingmanns um eignaupptökur var algengt framan af að kirkjur væru í eigu svokallaðra kirkjubænda. Það orð er í sjálfu sér ekkert meira orð en svo að kirkjubóndi var sá bóndi er reisti kirkju á jörð sinni, þannig að það flækir eiginlega spurninguna enn meira ef eitthvað er. Vorum við þá að taka á sínum tíma eignir af einstaklingum líka? Ég veit ekki hvort þessi fyrirspurn hv. þm. Smára McCarthys kalli á að ég komi hreinlega aftur í ræðu á eftir eftir að hafa setið um stund við tölvuna. Ég þarf greinilega að sökkva mér betur ofan í þennan vinkil á málinu því að ég hafði bara ekki hugmynd um neitt er lýtur að þessum Indlandsvinkli.