150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[13:57]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef verið beðinn um að reifa indverskan hæstaréttardóm í pontu þannig að ég þarf aðeins að hugsa. Málið snerist um að árið 1992 voru óeirðir í kringum mosku, nokkur hundruð kílómetrum frá Nýju-Delí. Í óeirðunum dóu um 2000 manns, að mig minnir, og moskan, sem var um 460 ára gömul, var eyðilögð. Ástæðan fyrir óeirðunum tengist miklum deilum milli hindúa og múslima í Indlandi á þessum tíma og sérstaklega þar sem þessi moska hafði verið smíðuð á tímum fyrsta keisara Mógúlaveldisins á stað sem var sagt að hefði verið fæðingarstaður Ram sem var einn af holdgervingum guðsins Vishnu. Þannig að ég fór rangt með áðan um hvaða guð væri að ræða en ég er aðeins búinn að ná að rifja þetta upp.

Tengslin við Ísland voru í raun fyrst og fremst í samhengi við ræðu hv. þingmanns og spurninguna um hvort guð gæti átt land og kirkjur og annað. Þetta er spurning sem hefur oft komið upp í gegnum mannkynssöguna, bæði hér og annars staðar. Að því er ég best veit hefur guð enga kennitölu. Það er mjög erfitt að framkvæma löggerninga og t.d. krefja guð um að borga skatta eða fasteignagjöld og annað. Þannig að þessi spurning verður mjög áleitin í samhenginu sem hv. þingmaður var að tala um og kannski ekkert endilega í samhengi við þetta mál, en bara út frá svona „púra“ heimspekilegum forsendum fannst mér þetta áhugavert og þess vegna bar ég þetta upp. En tengslin við eignayfirfærsluna frá kaþólsku kirkjunni í kringum siðaskiptin voru engu að síður mjög áhugaverð.