150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[15:25]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður ræðir hér. Það er ekki ólöglegt að eiga fyrirtæki á lágskattasvæðum eða aflandssvæðum út af fyrir sig. En það kallar auðvitað á spurningar um tilgang þess, sér í lagi þegar innlend fyrirtæki, að ekki sé talað um stór innlend fyrirtæki, reka víðfeðm net slíkra aflandsfyrirtækja. Þá þurfum við í það minnsta að tryggja að eftirlitsaðilar hafi næg úrræði til að elta uppi upplýsingar um rekstur þessara félaga og geti virkilega kafað ofan í þau. Það getur verið mjög flókið og snúið að setja sig inn í svona víðfeðm viðskipta- eða félaganet, getum við sagt, og kallar auðvitað á eðlilegar spurningar: Hver er tilgangurinn með svo flókinni umgjörð? Því að svo er að aflandsfélög sem þessi eru mjög gjarnan, þó að ekki sé ástæða til að alhæfa um það, notuð til skattsvika, skattsniðgöngu, ef svo mætti orða það. Þessi tregða okkar einmitt til að að innleiða nauðsynlegar lagabreytingar, nauðsynlegar úrbætur til að girða betur fyrir og auka gagnsæi, eins og CFC-löggjöfin snýr m.a. að, í rekstri þessara félaga vekur auðvitað upp spurningar. Ég ætla ekki að þykjast lesa út úr því einhverja víðtæka eða skipulagða spillingu heldur kannski miklu frekar einmitt þetta viðvarandi áhugaleysi sem hefur verið allt of lengi (Forseti hringir.) um að girða fyrir slíkt.