150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[16:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ágætissvar og minni hlutinn hefur svo sem tekið undir það sem hv. þingmaður nefndi, að það sé ekki fullkomlega ljóst hvort úrræði laga um opinber fjármál séu fullnýtt. En ég held að bæði stjórnarandstaða eða stjórnarliðar verði að ná einhverri sameiginlegri niðurstöðu um hvað falli undir þessi lög og hvað ekki. Mér finnst þetta vera hálfvegis tilgangslaus umræða, sérstaklega af hálfu minni hlutans, að þurfa að koma hingað og benda á að þetta eigi ekki við og það er ekkert hlustað á það.

Ég vildi spyrja hv. þingmann varðandi einn lið, á bls. 62 í frumvarpinu. Þar er fjallað er um bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og örorkulífeyri og talað um að veita 721 millj. kr. aukalega vegna endurreiknings búsetuskerðingar í kjölfar (Forseti hringir.) álits umboðsmanns Alþingis, sem varðar áhrif búsetutíma erlendis og rétt til örorkulífeyris. (Forseti hringir.) Er hugsanlegt — ég veit ekki hvort hv. þingmaður geti svarað því nákvæmlega — að (Forseti hringir.) hér sé verið að oftúlka úrskurð umboðsmanns, gæti það verið?