150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er um að gera að draga þetta fram — í öllum meginatriðum en ekki 100%. Það er það sem ég er að benda á. Af hverju förum við að lögum í meginatriðum, af hverju förum við ekki bara að lögum? Af hverju er kirkjan í fjáraukalögum ef við erum sammála um að hún eigi ekki heima þar? Við þurfum ekki að vera sammála um allt sem ég taldi upp að ætti ekki heima í fjáraukalögum, en af hverju getum við ekki tekið eitthvað út sem á ekki heima þar?

Lögin eru alveg skýr, þetta þarf að vera ófyrirséð og það má ekki vera hægt að bregðast við með öðrum hætti. Ég er ekkert að reyna að koma neinu pólitísku höggi á stjórnina. Enginn fjölmiðill hefur neinn sérstakan áhuga á þessari umræðu. Við erum að tala um varasjóði, almenna varasjóði og millifærslur. Það eina sem ég er að kalla eftir er að við verðum samferða, sama í hvaða flokki við erum, í að fylgja lögum um opinber fjármál til hins ýtrasta. Ég veit að margt er á réttri leið en við getum tekið stærri skref og hraðari. Lög um opinber fjármál horfa til framfara og ég held að margt jákvætt hafi breyst við það að þau voru samþykkt en enn eru nokkrar eftirlegukindur, vinnubrögð sem ég held að við getum öll verið sammála um, a.m.k. við í fjárlaganefnd, að senda skýr skilaboð um til ráðherranna að eigi ekki að viðgangast. Eins og ég segi er þetta ekki nýr vandi þessarar ríkisstjórnar. Ég hef alveg stutt ríkisstjórnir sem hafa haft bólgin fjáraukalög. Þetta er tæknileg umræða sem samt skiptir hún máli því að þetta er nokkuð sem löggjafarvaldið þarf að standa saman um gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ráðherrarnir munu alltaf finna leið til að reyna að nýta sér þessa heimild með því að setja eitthvað í fjáraukalög sem á ekki heima þar samkvæmt lögunum. (Forseti hringir.) Lögin gefa okkur ekki svigrúm, þau gefa okkur mat. Við getum deilt um hvað er ófyrirséð en útgjöld til kirkjunnar eru ekki ófyrirséð.