150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:23]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst jólin eru að nálgast ætla ég kannski bara að enda seinna andsvar mitt á að segja að ég get líka tekið undir margt í nefndaráliti meiri hlutans. Það er margt sem ég tek undir þar, fyrst hv. þingmaður er til í að taka undir alla vega eitthvað í nefndaráliti okkar í minni hlutanum. (Gripið fram í.) Það er margt jákvætt í ykkar nefndaráliti líka.

Aðeins varðandi Ríkisendurskoðun. Eins og ég sagði áðan eru athugasemdir þar í sex liðum, ekki bara einum lið. Þetta eru allt atriði sem þeir benda á að betur mætti fara. Heimurinn fer ekkert á hliðina við þessi útgjöld og mörg af þessum verkefnum eru bara sjálfsögð. En aftur er það bara þessi grundvallarspurning: Erum við að fylgja lögunum til hins ýtrasta eða ekki? Það sem ég hef verið að ítreka hérna er að mér finnst margt vera á gráu svæði. En að ári verða vonandi enn færri punktar sem Ríkisendurskoðun og við og aðrir benda á að séu á gráu svæði og það væri óskandi að fjáraukalög næsta árs, síðasta árs þessarar ríkisstjórnar, verði bara einfaldlega eingöngu (Forseti hringir.) með útgjöldum sem eru tímabundin, óhjákvæmileg og ófyrirséð.