150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:44]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður getur auðvitað mjög vel svarað þessari spurningu sjálfur. Auðvitað erum við að fara eftir lögum um opinber fjármál. Það er alveg augljóst að tekjurnar eru óvæntar og þar með er óvænt útgjaldaheimild sem þarf að fylgja. Hvorki lögreglan bjóst við þessum tekjum né ríkisstjórnin og það hafði ekki verið tekin nokkur ákvörðun um þær. Þær komu óvænt. Svo er spurningin hvernig við ráðstöfum tekjunum og ef tekjurnar eru óvæntar er heimildin sem þarf að fylgja væntanlega jafnframt óvænt. Það er hárrétt sem hv. þingmaður fór yfir, ef þetta er fjárfestingarframlag, og það þarf væntanlega að kanna hvað vantar og hvar er hyggilegt að kaupa búnað o.s.frv., er í þeim tilvikum ofur eðlilegt að það fjárfestingarframlag sé flutt á milli ára og hv. þingmaður getur í engu fullyrt að hér sé ekki verið að fara eftir lögum um opinber fjármál. (Gripið fram í.)