150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[20:50]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni ræðuna. Ég hlustaði auðvitað með andakt á ræðu hv. þingmanns, hann heldur oft prýðisræður þegar við ræðum efnahagsmál, fjárlög og fjárlagatengd mál þannig að ég hlustaði með athygli. En mér leið nákvæmlega eins og hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur sem var í andsvari við hv. þm. Þorstein Víglundsson, mér leið á köflum eins og hér væri bara allt á heljarþröm. En ég hef ákveðið umburðarlyndi fyrir þessari umræðu því að við erum að ræða tiltölulega afmarkað viðfangsefni sem eru fjáraukalög. Þar erum við, svo því sé haldið til haga, að ræða um 1,6% heildarfrávik heildarútgjalda. Ef við tökum óreglulegu liðina frá, og nú erum við aðallega að tala um meginfrávikin sem eru dæmigerð fjáraukamál, atvinnuleysistryggingar og fleira, er það 0,5% af heildarútgjaldaheimild fjárlaga. Það hefur ekki verið lægra um árabil, svo við jarðtengjum umræðuna aðeins aftur.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir fór yfir hækkun á lánshæfismati Moody's því að við erum að ræða hér hagkerfið og ganginn í því og það tengist auðvitað fjárlögum og við förum eftir efnahagsspám Hagstofunnar sem eru forsendur fjárlagafrumvarps. Og til að bæta við þetta segir AGS að hér sé um að ræða hárrétt hagstjórnarviðbrögð og í fyrsta sinn um árabil heyrum við að ríkisfjármálin séu að spila í takt við peningamálin. Við hljótum að horfa á jákvæðu myndina líka um leið og við ræðum efnahagsmálin í heild sinni. Ég vildi samt sem áður koma hérna upp og færa okkur aðeins inn á það frumvarp sem við ræðum og samhengi hlutanna.

Við hv. þingmaður erum þó sammála um eitt, það eru jákvæð skilaboð frá Seðlabanka Íslands. Það lítur allt út fyrir að við séum að ná mjúkri lendingu, blessunarlega, en það muni ná inn á mitt næsta ár (Forseti hringir.) og ég reikna með því að það verði kannski með því flóknara sem við höfum tekist á við saman, ég og hv. þingmaður í fjárlaganefnd, að setja saman ríkisfjármálaáætlun.