150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[22:38]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er annar punktur sem mig langar rétt að koma inn á, varðandi erlenda sjúkrahúsþjónustu, þær 410 milljónir sem ræddar eru í fjárauka. Þarna erum við ekki kannski fyrst og fremst að tala um liðskiptaaðgerðir erlendis. Þetta eru ferðalög Íslendinga erlendis og ýmislegt sem kemur upp á og fellur þarna undir. Það kemur hins vegar ekki fram á móti hvað við höfum í tekjur í íslenska heilbrigðiskerfinu af erlendum ferðamönnum. Það væri einmitt til að jafna þarna á milli. Við höfum spurst fyrir um það í fjárlaganefnd hvort til sé yfirlit á móti yfir hversu mikið erlendir ferðamenn greiða fyrir heilbrigðisþjónustu hjá okkur til að fá einhverja samsvarandi tölu við þessar 410 milljónir sem ríkissjóður borgar fyrir Íslendinga á ferðalögum erlendis. Þetta er tala sem tengist fyrst og fremst því. Þó að liðskiptaaðgerðir komi mögulega þar inn að einhverju leyti eru þær ekki stóra talan í þessu máli.

Það sem er hins vegar áhugavert við þennan fjárauka og svo næsta mál á dagskrá, sem er ríkisreikningur 2018, er að bæði fjáraukinn og ríkisreikningur sýna eiginlega öðruvísi tölur, öðruvísi stöðugleika, en við höfum séð áður í íslensku efnahagslífi og hvernig áætlanagerðin er að ganga eftir. Ef hv. þingmenn lesa ríkisreikninginn er þetta alveg ótrúleg breyting. Við tökum það kannski bara í seinni umræðu um ríkisreikninginn. Í fjáraukanum eru fyrst og fremst þrjú atriði sem eru stóru tölurnar þar, sem við erum að bæta inn í. Það er dómurinn varðandi eldri borgara, það er atvinnuleysi og Fæðingarorlofssjóður. Þessi þrjú atriði skýra þessa stóru upphæð fjáraukans. Ef við tækjum frá þessa óvæntu hluti sem koma upp vegna dóma, atvinnuleysis, vegna falls WOW air og slíkra þátta, þá er áætlanagerðin (Forseti hringir.) ótrúlega nákvæm, þ.e. fjárlögin fyrir 2019 ganga ótrúlega vel eftir.