150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[22:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Undir lok hennar fór þingmaður yfir það að hann vonaði að við myndum ekki standa í þessum sömu sporum á sama tíma að ári. Ég er ekki jafn vongóð og hv. þingmaður um að úr því verði því við höfum nýlokið umræðum um fjárlög þar sem ítrekað var bent á vanáætlanir á ýmsum sviðum. Fyrir afgreiðslu fjárlaga töluðum við lengi um vanáætlun til embætta héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra, svo dæmi séu tekin. Við ræddum auðvitað heilbrigðismálin og núna t.d. er mjög alvarleg staða á Landspítalanum þar sem þarf að skera niður vegna halla á þessu ári. Honum er ekki mætt í þessum fjáraukalögum. Maður getur velt fyrir sér líka forgangsröðuninni hjá ríkisstjórninni því að það er ekki þannig að allar breytingarnar sem ríkisstjórnin leggur til hafi verið ófyrirséðar. Það kom fram í máli hv. stjórnarþingmanna í dag að þarna væri líka ákveðin pólitísk forgangsröðun. En Landspítalanum er ekki raðað framarlega ef marka má tillögur um fjáraukalög. Ég vil biðja hv. þingmann um að fara yfir það með okkur (Forseti hringir.) hvers vegna hann telur að það sé einhver von eða hvort hann telji yfir höfuð vera einhverja von til þess að við stöndum ekki í sömu sporum að ári liðnu.