150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[23:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar stjórnvöld gera svona lélegar áætlanir eins og þessi hæstv. ríkisstjórn gerir, þá er svolítið verið að færa til fjárveitingavaldið. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að ráðherraræðið innan þessarar ríkisstjórnar sé meira áberandi en maður hefur séð, alla vega undanfarin ár. Ráðherraræði var mikið fyrir hrun en eftir rannsóknarskýrsluna og umræður í þingsal voru allir sammála hér í salnum um að það þyrfti að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu, framkvæmdarvaldi sem starfar hér á okkar ábyrgð. Mér fannst þetta t.d. sérstaklega áberandi þegar við vorum að ræða um fjárveitingar til héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra á dögunum og hæstv. ráðherrar héldu því ítrekað fram að hér væri ekki vandi á höndum því að þeir myndu sjálfir sjá til þess, ef rétt reyndist að ákall embættanna sem fram var þó komið fyrir afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins væri einhvers virði, þeir myndu þá grípa til sinna ráða. Og þegar úthlutað er úr varasjóðunum, sem má náttúrlega aðeins gera fyrir eitthvað sem er algjörlega ófyrirséð, þá þarf nefnilega ekki að bera það undir þingið. Það þarf bara að tilkynna fjárlaganefnd.