150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

104. mál
[10:53]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hér sé afskaplega gott mál á ferðinni og styð það heils hugar. En mig langar engu að síður að spyrja hv. þingmann, í ljósi þeirra orða hennar um að við eigum svo sannarlega leggja áherslu á þennan iðnað, hvernig það rími við nýlega afgreiðslu fjárlaga sem hv. þingmaður studdi. Þar kemur fram að þessi ríkisstjórn, þar á meðal hv. þingmaður, sé að skera niður endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar um 30%. Kvikmynda- og sjónvarpsgeirinn hefur gagnrýnt þetta harðlega og talað um áfall. Mér finnst það mjög sérkennileg skilaboð sem hv. þingmaður og hans flokkur eru að senda í þennan geira með ekki litlum niðurskurði heldur 30% á sama tíma og hv. þingmaður kemur í pontu og lýsir yfir miklum stuðningi og ánægju með þá útvíkkun sem þetta mál kallar á — sem er jákvæð. Mig langar endilega að fá frekari svör um hvernig þetta rími við hennar nýlegu gerðir í þessum sal þegar fjárlög voru afgreidd með slíku reiðarslagi þegar kemur að endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar.