150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um að Evrópusambandið sé ekki tollabandalag. En ég veit ekki betur en að allar vörur sem fluttar eru frá okkur séu að fullu tollaðar, enda erum við náttúrlega ekki í Evrópusambandinu. Það er fullt af landbúnaðarvörum sem eru fluttar hér inn án tolla. Ég hef ekki orðið var við það að þær séu endilega svo miklu ódýrari, alla vega ekki fyrir þá hluta. Ég gæti nefnt fullt af grænmetistegundum sem eru án tolla og aðrar landbúnaðarvörur. (Gripið fram í.) En grænmetisbændur hafa kallað eftir þessu tímabili. Þeir vilja fá þessa vernd. Ég er ekkert endilega ósammála hv. þingmanni um að við eigum að taka upp eitthvert annað kerfi til að styrkja innlenda framleiðslu en það tekur lengri tíma að móta það kerfi og ég vona bara að þegar að því komi muni hv. þingmaður styðja það. En þær breytingar sem voru gerðar á tímabilum og tollvernd grænmetisafurða voru gerðar í fullu samráði og það var líka vegna ábendinga grænmetisbænda sem treysta sér í það. Í frumvarpinu var horft á tímabil og aftur í tímann um tíu ár en við verðum náttúrlega líka að horfa til framtíðar frá deginum í dag, ekki horfa um öxl. Þess vegna er mjög mikilvægt að fá þetta endurskoðunarákvæði inn til þess að vega og meta. Þetta eru mjög drastískar breytingar sem við erum að gera á úthlutun tolla og síðan getum við tekið þær upp. Það getur vel verið að þessi tímabil eða tollar breytist þegar reynslan segir okkur hvað það þýðir.