150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:35]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ræðu hennar. Mig langaði aðeins að eiga við hana orðastað um eitt og eitt atriði en ætla að koma aðeins betur inn á hlutina í ræðu á eftir. Þorgerður ræddi um gagnsæi og fór með tollskrárnúmer. Nú hef ég ekki lengi verið á þingi og ég veit að hv. þingmaður hefur setið mun lengur á þingi en ég en er nefndarálit sem slíkt ekki notað til lögskráningar? Mér finnst eðlilegt að menn upplýsi um það í nefndaráliti varðandi tollskrárnúmerin. Síðan vísa ég í að það er frekari útskýring á þeim vörum í ákveðinni töflu í nefndarálitinu, svo það sé sagt.

En eitt vona ég að mér hafi misheyrst. Þingmaður kom inn á að það færu 17 milljarðar til landbúnaðar í beingreiðslur. Þeir eru 12, bara svo það sé sagt. Ég sló því inn áðan og reiknaði það út, þeir eru 12, ekki 17. Við skulum hafa það …(ÞKG: Rúmlega 16 …) Við skulum bara reikna þetta saman á eftir, Þorgerður, en ég held að þetta sé svona.

Mig langar að spyrja hv. þm. Þorgerði Katrínu varðandi það að nú er hér tekið upp ákveðið fyrirkomulag sem kallað er hollenska útboðsleiðin. Í mínum huga er eðlilegt að það sé einhver vernd á innlendri vöru. En sér hv. þingmaður engin tækifæri í innflutningi varðandi þessa hollensku leið? Mig langar að spyrja að því.