150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[15:18]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir spurninguna. Hv. þingmaður vitnaði til talna sem Þórólfur Matthíasson lagði fram. Ég kannast ágætlega við þessar tölur varðandi samanburð á fé á Nýja-Sjálandi og kindur á Íslandi. Þetta eru reikningskúnstir og þegar þetta mál var skoðað gerðu Landssamtök sauðfjárbænda athugasemd um að menn væru ekki að nota sömu reikniformúlur. Þegar menn fóru að nota sömu reikniformúlu og færðu hana yfir á Nýsjálendinga var féð á Nýja-Sjálandi vissulega að losa aðeins minna en það munaði bara 2%. Það var 27% í staðinn fyrir 29. Þannig að þetta snýst svolítið um það hvernig menn reikna hlutina. Það var mjög gott að hv. þingmaður kom inn á þennan vinkil því að í allri umræðu í þessum málum, útblástursmálum og hvernig við tökumst á við þau, hefur mér fundist skorta almennan skynsamlegan mælikvarða sem allir geta verið sammála um. Við þekkjum öll umræðuna varðandi það að moka ofan í skurði, að það eigi að bjarga heiminum. Ég er bara ekki þar, að fara að moka ofan í skurði sem ræstir voru fram fyrir 60 árum. Ég kem kannski betur inn á það á eftir í næsta svari. En byrjum á því að horfa á það hvernig hlutirnir eru reiknaðir.