150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnu við fiskveiðar.

315. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnu við fiskveiðar. Það er álit frá umhverfis- og samgöngunefnd. Það ber að byrja á því að upplýsa að nefndin hefur að sjálfsögðu fjallað um málið og fengið á sinn fund Eggert Ólafsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Nefndinni barst ein umsögn, frá Margréti Þ. Jónsdóttur hjúkrunarfræðingi.

Í stuttu máli er frumvarpinu ætlað að mæta kröfum 188. samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO, um vinnu við fiskveiðar, með það að markmiði að Ísland verði í kjölfar þeirra lagabreytinga sem eru lagðar til tilbúið til að fullgilda samþykktina. Kröfur hennar þar að lútandi snúa að banni við næturvinnu ungmenna, skyldu einkarekinna fyrirtækja sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu til að starfa eftir stöðluðu kerfi og kröfu um framvísun heilbrigðisvottorðs til að fiskimönnum ssé heimilt að starfa á fiskiskipi.

Þá fyrst aðeins um heilbrigðisvottorðin. Við meðferð málsins fór nefndin yfir þær breyttu kröfur sem gerðar eru með frumvarpinu til útgáfu heilbrigðivottorða vegna starfa á fiskiskipum. Sú krafa að við tilteknar aðstæður leggi fiskimenn, aðrir en vél- og skipstjórnarmenn, fram heilbrigðisvottorð til staðfestingar fullnægjandi heilsufari er nýmæli. Starfi fiskimaður á fiskiskipi sem er 24 metrar að lengd eða lengra eða er að jafnaði á sjó í þrjá daga eða lengur skal gildistími heilbrigðisvottorðs vera að hámarki tvö ár en eitt ár ef fiskimaður er yngri en 18 ára. Gildistími heilbrigðisvottorða vél- og skipstjórnarmanna er með því styttur úr fimm árum í tvö, samanber 2. efnismálsgrein 4. gr. frumvarpsins. Nefndin áréttar í þessu samhengi að kröfu um heilbrigðisvottorð er ætlað að tryggja öryggi og heilbrigði fiskimanna og almenna hagsmuni fiskimanna sem og annarra sjómanna og útgerða.

Á fundum nefndarinnar var einnig fjallað um afhendingu heilbrigðisvottorða með hliðsjón af sjónarmiðum um persónuvernd.

Fyrir nefndinni kom jafnframt fram það sjónarmið að sú breyting sem lögð er til með kröfu um framlagningu heilbrigðisvottorða og styttingu gildistíma leiði af sér margföldun á heilbrigðisskoðunum sjómanna og því væri full ástæða til að gera þá breytingu að auk lækna verði hjúkrunarfræðingar taldir bærir til að framkvæma slíkar skoðanir. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið muni taka ábendinguna til skoðunar í samráði við heilbrigðisráðuneytið þegar unnið verður að frekari innleiðingu ákvæða samþykktarinnar með stjórnvaldsfyrirmælum. Nefndin tekur undir það sjónarmið að kannað verði hvort veita skuli víðtækari heimild innan heilbrigðisstéttarinnar til að framkvæma slíkar skoðanir, þannig að fleirum en læknum verði heimilt að gera þær og hvort slík heimild kalli á breytingar á kröfum til menntunar.

Þá er hér einnig fjallað um hugtakið fiskimaður sem er kannski að mörgu leyti nýyrði í íslensku, en þó ekki alveg. Það kemur í ljós að í frumvarpinu er þetta orð notað og ég ætla að lesa úr nefndarálitinu orðrétt:

„Með frumvarpinu er til samræmis við alþjóðasamþykktina lagt til að bæta orðskýringu á hugtakinu „fiskimaður“ við lög um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa. Nefndin bendir á að í 3. gr. frumvarpsins eru hins vegar notuð orðin „skipverjar“ og „sjómenn“ þar sem hugtakið „fiskimaður“ er notað í samþykktinni. Þá er í lokamálsgrein 4. gr. örðugt að sjá hvaða munur er gerður á hugtökunum „fiskimaður“ og „skipverji“. Nefndin telur mikilvægt að gætt sé samræmis í hugtakanotkun verði skilgreining hugtaksins „fiskimaður“ lögfest þar sem um er að ræða hugtak sem á byggist réttur og lagðar eru á skyldur samkvæmt lögunum með vísan til alþjóðasamþykktar. Nefndin áréttar jafnframt mikilvægi þess að ekki aðeins sé gætt samræmis í hugtakanotkun innan sjálfra laganna heldur einnig innan lagabálka. Nefndin leggur því til með vísan til framangreinds að orðið „fiskimaður“ komi í stað orðanna „skipverjar“ og „sjómenn“ sem og að gerð sé smávægileg breyting á orðalagi efnismálsgreinar 2. gr. sem þýdd er úr alþjóðasamþykktinni.“

Að lokum leggur nefndin til nokkrar orðalagsbreytingar eins og gjarnan er.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi tveimur breytingum aðallega:

1. Efnismálsgrein 2. gr. orðist svo: „Fiskimaður er hver sá sem starfar eða er ráðinn til vinnu á fiskiskipi, þ.m.t. þeir sem eru ráðnir upp á aflahlut. Hafnsögumenn, löggæsluaðilar, aðrir aðilar í fastri þjónustu hins opinbera, starfsmenn í landi sem sinna störfum um borð í fiskiskipum eða eftirlitsmenn með fiskveiðum teljast ekki vera fiskimenn.“

2. Breyting við 3. gr. um að 2. efnismálsgrein orðist svo: „Skráningar- og ráðningarþjónusta skal vera skilvirk, fullnægjandi, áreiðanleg, fiskimönnum að kostnaðarlausu og til þess fallin að auðvelda fiskimönnum að ráða sig í skipsrúm.“

Aðrar breytingar eru, eins og fram kom áðan, orðalagsbreytingar.

Ari Trausti Guðmundsson, sem hér stendur, og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna um fastanefndir Alþingis. Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu. Undir álitið skrifa því formlega hv. þingmenn Bergþór Ólason, formaður nefndar, Ari Trausti Guðmundsson framsögumaður, Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Gunnarsson, Karl Gauti Hjaltason, Líneik Anna Sævarsdóttir, Orri Páll Jóhannsson og Vilhjálmur Árnason.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.