150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[11:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alls ekki að reyna að vega að formennsku hv. þingmanns í nefndinni. Ég held reyndar að undir hennar skeleggu stjórn hafi okkur tekist að vinna þetta mál mjög vel þrátt fyrir lítinn tíma, sem við tókum alveg undir að væri stuttur. En þær áhyggjur sem voru viðraðar — það er algengt, að mér skilst, ég hef bara setið jafn lengi og hv. þingmaður á þingi, að teknir séu inn gestir þó að umsagnarfrestur sé ekki liðinn. Ég held að okkur hafi tekist að vinna þetta mál ágætlega og bent á ágalla og þær áhyggjur sem komu fram í umsögnum og við gestakomu. Við tókum undir og virtum þá vinnu sem hefur farið fram á milli þessara stofnana um sameininguna og ég held og vona að það verði engin slys á leiðinni, alla vega ekki sem tengjast þeirri vinnu sem hefur farið fram í nefndinni, sem ég held að hafi bara verið ágæt. Ég þakka formanni velferðarnefndar fyrir skjóta og góða vinnu og leiðsögn í þessu máli.