150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[11:51]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Í vetur lagði ég nokkrar spurningar fyrir félags- og barnamálaráðherra er vörðuðu atriði sem tengjast því frumvarpi sem hér er til umræðu. Í frumvarpinu er m.a. fjallað um hlutverk Mannvirkjastofnunar. Það sem ég hafði m.a. áhyggjur af var hvort Mannvirkjastofnun væri að fara inn á verksvið gæðamála sem betur ættu heima í höndum byggingarstjóra. Ég spurði því nokkurra spurninga um gerð byggingagáttar og úttektarapps. Ein þeirra er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hvenær hófst vinna við gerð á rafrænni byggingagátt og úttektarappi hjá Mannvirkjastofnun?“

Svarið var:

„Samkvæmt upplýsingum frá Mannvirkjastofnun hófst vinna við þarfagreiningu vegna byggingagáttarinnar á árunum 2011–2012 með norrænum samstarfsaðilum frá Eistlandi og Svíþjóð. Árið 2012 hófst svo vinna við þróun á rafrænu gagnasafni Mannvirkjastofnunar um mannvirki og mannvirkjagerð, svonefndri byggingagátt. Árið 2015 var gerður samstarfssamningur við Hugvit um þjónustuvef Mannvirkjastofnunar (mínar síður) og árið 2017 var grunnurinn lagður að byggingagátt.

Úttektarapp vegna byggingagáttar var unnið á árunum 2016–2017 og tekið í almenna notkun í ársbyrjun 2018.“

Rafræn skil á gögnum er varða byggingar eru alltaf til bóta og er nauðsynlegt að þau séu gerð aðgengileg og varðveitt á sama stað. Engu að síður er varhugavert að stofnun sé að vasast í því hvernig gæðakerfi við húsbyggingar eru uppsett. Til þess er fjöldinn allur af fyrirtækjum sem eru í stöðugri þróun. Byggingagáttin sem nefnd er í þessu frumvarpi á ekki heima hér.

Ég spurði líka eftirfarandi spurningar í haust, með leyfi forseta:

„Hvernig var ákvörðun tekin um smíði byggingagáttar annars vegar og úttektarapps hins vegar? Var efnt til útboðs og ef ekki, hvernig var ákvörðun tekin um samninga við birgja vegna verksins?“

Í svarinu kemur þetta fram:

„Í samræmi við stefnu stjórnvalda um aukna rafræna stjórnsýslu sem og ákvæði laga um mannvirki, nr. 160/2010, um rafrænan gagnagrunn með upplýsingum um byggingarmál setti Mannvirkjastofnun á fót byggingagátt sem ætlað er að þjóna sem rafrænt gagnasafn um mannvirki og mannvirkjagerð um allt land, samanber 5. tölulið 1. mgr. 5. gr. og 61. gr. laga um mannvirki.

Árið 2010, áður en Mannvirkjastofnun tók til starfa, efndi Brunamálastofnun til útboðs vegna gagnagrunns á rafmagnsöryggissviði, svonefndri rafmagnsöryggisgátt. Í því útboði barst hagstæðasta tilboðið frá hugbúnaðarfyrirtækinu Hugviti. Byggingagátt notar sömu grunnkerfi og rafmagnsöryggisgáttin og mikið af þeirri sérsmíði sem þegar hafði verið unnin vegna hennar. Í samráði við Ríkiskaup var ekki talið hagkvæmt að bjóða út byggingagáttina sérstaklega og nýta þar með ekki þær lausnir sem voru til staðar vegna uppbyggingar miðlægrar rafmagnsöryggisgáttar. Því voru gerðir viðaukar við útboðssamning Hugvits þegar vinna við byggingargátt hófst.“

Það vekur athygli að hér var verið að finna upp hjólið. Fjöldinn allur af kerfum í löndunum í kringum okkur þjónar sama hlutverki. Sennilega hefði verið farsælast að leita í smiðju landanna í kringum okkur enda eru nú þegar í notkun kerfi í byggingariðnaði sem koma að utan.

En áfram úr svarinu:

„Mannvirkjastofnun hefur átt í samstarfi við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins um smíði á úttektarforriti vegna brunavarna en það hefur verið notað af þjónustuaðilum brunavarna um nokkurt skeið. Ákveðið var að byggja úttektarapp Mannvirkjastofnunar á grunni úttektarforrits vegna brunavarna þar sem með því var hægt að minnka þróunarkostnað á úttektarappi Mannvirkjastofnunar til muna. Reynslan af innleiðingu úttektarforrits vegna brunavarna hefur einnig nýst mikið við innleiðingu úttektarapps Mannvirkjastofnunar.

Úttektarapp Mannvirkjastofnunar er byggt á skoðunarlistum sem eru hluti skoðunarhandbóka Mannvirkjastofnunar. Úttektarappið er því rafræn útgáfa af skoðunarlistum sem skila rafrænum niðurstöðum til frekari greiningar.“

Ég bendi á að skoðunarhandbækur eru lifandi skjöl. Þær geta verið mismunandi milli fyrirtækja en allar gera þær lágmarkskröfur og við það að staðla slíkar bækur er alltaf hætta á að verkferlar staðni.

Ég spurði fleiri spurninga, m.a. hvaða sérfræðingar hefðu verið keyptir til ráðgjafar, og það vekur eflaust spurningar. Niðurstaðan er engu að síður sú að samkvæmt svari ráðherra er kostnaður við byggingagátt rúmar 100 milljónir en við appið um 3 milljónir. Þar sem kostnaður við appið er lítill hluti kostnaðar en jafnframt sá hluti sem einkafyrirtæki geta séð um sjálf hefði verið eðlilegra að stofnunin byði upp á að byggingarstjórar gætu sjálfir ákveðið hvaða gæðakerfi þeir notuðu, svo framarlega sem þau fullnægðu lágmarkskröfum, að þeir gætu notað það app sem þeim sýndist enda margir á þeim markaði. Það er ekki augljóst hver mun á endanum þurfa að greiða fyrir notkun á þessum kerfum en það er alveg ljóst að einhver mun borga.