150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[13:13]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og vil kannski byrja á lokunum. Það virðist vera sem hv. þingmaður hafi ekki heyrt ræðu þeirrar sem hér stendur, þ.e. niðurlag ræðunnar þar sem kom skýrt fram að hópurinn væri að sjálfsögðu ekki að leggjast gegn lífskjarasamningunum heldur gegn þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð, þ.e. að taka ekki tillit til þessa hóps. Þegar hv. þingmaður segir að það gæti misskilnings hjá Félagsbústöðum og velferðarsviði Reykjavíkurborgar og Reykjavíkurborg er vert að benda á að umræddir aðilar sendu líka inn umsögn í samráðsgátt í þeirri viku sem gefin var hjá stjórnvöldum til samráðs við þessa stóru aðila og sú umsögn rímar algerlega við umsögn Brynju – hússjóðs, umsögn Þroskahjálpar og umsögn Öryrkjabandalagsins, af því þetta eru einmitt þeir hópar sem eru að reyna gæta hagsmuna þessa hóps sem við erum hér að tala um.

Misskilningurinn sem hv. þingmaður segir að sé til staðar varðandi þetta allt saman hefur a.m.k. ekki verið leiðréttur í nefndinni vegna þess að þegar minni hlutinn óskaði eftir að fá að kalla þessa aðila fyrir nefndina til að útskýra umsögn sína var því hafnað af meiri hlutanum. Ég veit því ekki hvaðan hv. þingmaður hefur þær upplýsingar að þetta sé misskilningur, hvort hann hafi heyrt það hjá Félagsbústöðum eða bara einhvers staðar annars staðar. En það er alveg ljóst að allir þeir aðilar sem sendu inn umsögn og bentu á þetta hafa þá kannski mögulega verið að misskilja — ja, hv. þingmann? Ég veit það ekki.