150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

tekjustofnar sveitarfélaga og sveitarstjórnarlög .

391. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og sveitarstjórnarlögum (forsendur úthlutunar úr jöfnunarsjóði). Sú sem hér stendur stendur ein að þessu minnihlutaáliti og því er rétt að halda því til haga að ég velti því töluvert fyrir mér hvort gagnrýni mín á meðferð málsins fæli í sér að það dygði að skrifa undir með fyrirvara því að efnislega er ég í sjálfu sér ekki ósammála því. Það sem ég hef þó hug á og vil gjarnan koma skýrt á framfæri er gagnrýni við málsmeðferðina. Ég taldi henni betur fyrir komið í nefndaráliti. Það er stutt og laggott og ég ætla að renna yfir það hér.

Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar gagnrýnir harðlega þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við framlagningu frumvarpsins og telur að þingleg meðferð hafi verið óviðunandi.

Minni hlutinn bendir á að málið var opið til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á tímabilinu 20. júní til 5. júlí sl. og niðurstöður þess samráðs síðan birtar 29. júlí. Fjórum mánuðum síðar var svo mælt fyrir málinu á Alþingi þar sem það gekk til umhverfis- og samgöngunefndar 28. nóvember. Í ljósi þess skamma tíma sem þá var fram að áætlaðri þingfrestun fyrir jól var eingöngu veittur umsagnarfrestur til 9. desember. Alls bárust átta umsagnir, þar af tvær eftir tilkynntan umsagnarfrest, þ.e. 13. desember. Einu gestirnir sem boðaðir voru á fund nefndarinnar voru frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Að öðru leyti hafði nefndin ekki tök á að bregðast við með fullnægjandi hætti og kalla aðra umsagnaraðila, og síðan enn aðra eftir atvikum, fyrir nefndina eftir því sem tilefni var til. Það er rétt að geta þess hér að meira að segja Reykjavíkurborg sem óskaði eftir að fylgja eftir umsögn sinni fyrir nefndinni var of sein til. Sú beiðni barst, ef ég man rétt, 13. desember og þá var búið að afgreiða málið út úr nefnd. Það var sem sagt tekið út úr nefnd tveimur, þremur dögum eftir að umsagnarfrestur rann út. Meiri hlutanum þótti ekki ástæða til að kalla Reykjavíkurborg inn, langstærsta sveitarfélagið, í svo mikilvægu máli sem fjallar um sveitarfélög.

Að gefnu tilefni langar mig að nefna að þetta er ekki fyrsta málið sem við höfum verið með á dagskrá í dag sem varðar annars vegar stuttan úrvinnslutíma í þinglegri meðferð og hins vegar málefni sveitarfélaga. Það hefur komið fram í máli sumra stjórnarþingmanna að hægt væri að líta svo á að fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga væru fulltrúar allra sveitarfélaga. Ég ætla ekki að gera því skóna að þetta sé almennt orðin viðurkennd nálgun en ég tel samt ástæðu til að við spornum við þeirri þróun að svo sé litið á við þinglega meðferð mála sem varða sveitarfélögin sem eru enn mjög mörg og ansi misjöfn, bæði að stærð og styrk og eins er mismunandi hvernig einstaka málefni horfa við þeim. Það má ekki verða þannig að afleiðingin af bixi með samráðsgátt stjórnvalda og þeim því miður neikvæðu áhrifum, liggur mér við að segja, sem það hefur á þinglega meðferð sé sú að gengið sé út frá því að Samband íslenskra sveitarfélaga sé fullburðugt að tala fyrir hönd allra sveitarfélaga. Ég nefni það sérstaklega hér.

Minni hlutinn getur fallist á að það hafi verið mikilvægt að bregðast við niðurstöðu Hæstaréttar frá 14. maí 2019 í máli nr. 34/2018 þar sem íslenska ríkið var dæmt til greiðslu bóta á grundvelli óheimils framsals löggjafarvaldsins til framkvæmdarvaldsins. Það breytir því ekki að einfalt hefði átt að vera að gefa umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis ásættanlegan tíma til að fjalla um málið. Þá styður minni hlutinn að þeim þáttum frumvarpsins er varða fjármögnun í tengslum við sameiningarmál sveitarstjórna sé frestað til næsta árs. Minni hlutinn áréttar þó að í frumvarpinu sé að finna aðra þætti sem krefjast meiri umfjöllunar en þeirrar sem lagt er upp með hér.

Nú sé ég og verð að taka á mig þá handvömm að hafa ekki þurrkað út það sem kemur hér á eftir í álitinu: „og vísar þar m.a. til þess sem er lagt til um fasteignaskatta“. Þar hafði ég tekið út mun lengri málsgrein í þágu styttingar þannig að ég þarf að gæta þess að þetta verði lagað.

Minni hlutinn ítrekar að það sé óásættanlegt að nefndir þingsins fái þingmál um mikilvæg málefni frá ríkisstjórninni til umfjöllunar með svo skömmum fyrirvara að ekki sé nægur tími til að tryggja viðunandi málsmeðferð. Með vísan til framangreinds getur minni hlutinn því ekki stutt framgang þessa frumvarps.

Ég árétta að ástæða þess að þetta minnihlutaálit er hér er framgangur málsins, ekki einstök efnisatriði. Ég styð þau sem ég náði að kafa ofan í og meiri hlutinn tiltekur að séu tvö þau stærstu, önnur hef ég bara einfaldlega ekki enn forsendur til að meta og ég gagnrýni sérstaklega harðlega að sá ágreiningur sem kemur í umsögn Reykjavíkurborgar varðandi útreikning á úthlutun tiltekinna framlaga úr jöfnunarsjóði þar sem beinlínis er vísað til stjórnarskrárinnar okkar hafi af hálfu meiri hluta nefndarinnar ekki þótt nægilega mikilvægur til a.m.k. að boða fulltrúa Reykjavíkurborgar á fund áður en málið var afgreitt.