150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

tekjustofnar sveitarfélaga og sveitarstjórnarlög .

391. mál
[14:38]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við virðumst enn vera að reyna að finna taktinn í öllu þessu nýja fyrirkomulagi og ég ætla ekki að gera neinum það upp að stíga vísvitandi fastanefndir Alþingis út í þessum málum. Staðreyndin er sú í heildina að það eru ekki eingöngu þingmenn heldur jafnvel hæstv. ráðherrar sem eru enn að átta sig á vinnubrögðunum. Hér hefur ítrekað komið fyrir, t.d. í þingsal þegar verið er að ræða þessi mál og þá með ákveðinni gagnrýni á fyrirkomulagið, að einstaka hæstv. ráðherrar hafa svarað þingmönnum þannig til að þeir geti bara kíkt á umsagnir sem hafa kom inn í samráðsgáttina. Það er galin nálgun, í fyrsta lagi með ábyrgð, virðingu og störf þingsins í huga og í öðru lagi vegna þess að mál taka breytingum í millitíðinni og við verðum að geta fylgst með öllu ferlinu.

Þegar kemur að þessari tilteknu spurningu hv. þingmanns langar mig fyrst að segja að við þurfum öll að aga okkur í öllu ferlinu. Ef það þýðir að setja þurfi niður fastar dagsetningar um lágmarkstíma sem nefndin fái til að fjalla um málið eftir að það kemur úr samráðsgátt og síðan úr meðförum ráðuneytis er það eitt. Þegar um er að ræða mál af þessum toga, þetta umfangsmikið og flókið vegna ólíkra hagsmuna og ólíkrar nálgunar þeirra sem þessi lög varða, hefði verið mikilvægt að fá a.m.k. þessa umsagnaraðila á fund til að ræða málin. Það var svigrúm til þess, annað eins hefur gerst að hér hafi nefndafundir verið haldnir að kvöldlagi eða meðfram öðrum fundum. Því er svarað þannig í umsögn meiri hlutans að ekki hafi þótt ástæða til.