150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fræðsla um vefjagigt og endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu.

36. mál
[19:19]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum að greiða atkvæði um þingsályktunartillögu um fræðslu um vefjagigt og endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu. Með þessari tillögu er lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu sem skiptir gríðarlega miklu máli vegna þess að þetta er langvinnur, algengur sjúkdómur sem hrjáir allt að 12.000 Íslendinga á hverjum tíma. Í gegnum tíðina hafa fordómar verið tengdir þessum sjúkdómi. Aðallega eru konur á miðjum aldri með hann og er mikilvægt að nálgast viðfangsefnið með virðingu. Það er hægt að eyða fordómum með markvissri fræðslu um sjúkdóminn, auk þess sem það þarf að vekja máls á vandanum og líka að einbeita sér að því að koma þessu fólki fyrr út á vinnumarkaðinn og grípa sjúkdóminn sem fyrst.