150. löggjafarþing — 46. fundur,  17. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[00:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin sem voru upp og ofan. Það sló mig áðan að hv. þingmaður sagði að það væri verið að gera þetta í öllum löndum og allt í einu kviknaði hjá mér gamall texti, með leyfi forseta:

„Fram, þjáðir menn í þúsund löndum.“

Ég vissi reyndar ekki að þúsund lönd væru til en látum það liggja á milli hluta. Ég er ekkert endilega á því að það sé rétt fyrir okkur að gera nákvæmlega það sem Norðurlöndin eru að gera sem eru 15–20 sinnum fólksfleiri en við. Hv. þingmaður sagði að þau styrktu sína fjölmiðla jafnvel þó að ríkisfjölmiðillinn væri ekki á auglýsingamarkaði. Ef ríkisfjölmiðillinn okkar væri ekki á auglýsingamarkaði og okkur skattgreiðendum bæri að bæta honum það upp myndi það kosta okkur aukalega 2 milljarða. Þá kemur óhjákvæmilega spurningin: Er það endilega styrking fyrir lýðræðið að styrkja sterkan ríkisfjölmiðil?