150. löggjafarþing — 46. fundur,  17. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[00:39]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað er það ekki þannig að í stjórnarsáttmálanum hafi verið skrifað undir einhverja aðferðafræði í þessu og að RÚV væri undanskilið. Það var ekki okkar skilningur á því. Þingmaðurinn svarar ekki þeirri spurningu hvort hann sé tilbúinn að aðlaga samkeppnisumhverfi frjálsra fjölmiðla að því sem gerist bara í því umhverfi sem við lifum í. Hann vill takmarka það. Hann svarar því heldur ekki hvort honum finnist það eðlilegt að auglýsingadeild RÚV beiti þeim samkeppnisógnunum að þurrka upp auglýsingamarkaðinn í ákveðinn tíma. Þetta þekkja allar auglýsingastofur og þetta þekkja allir miðlar, hvernig markaðurinn þurrkaðist upp í sumar þegar RÚV beitti styrk sínum og stærð. Er ekki ástæða til að takmarka þetta? Er ekki ástæða til að draga úr þessari starfsemi? Getum við þá ekki lagað rekstrarumhverfið að öðru leyti? Auglýsingabirtingar byggjast á snertiverðum. Þetta er allt orðið mælanlegt. Auglýsingar munu alveg flæða á milli, menn geta birt þær tvisvar á einum stað til að ná sama fjölda og þeir náðu annars staðar og náð markhópunum eftir því sem þeir liggja. Þetta er allt saman (Forseti hringir.) rannsakað út og suður. En getum við ekki lagað þetta rekstrarumhverfi? Er það ekki óeðlileg samkeppnisógn (Forseti hringir.) hvernig RÚV beitir sér og eigum við ekki að opna þennan markað (Forseti hringir.) þannig að fjölmiðlar standist samkeppni þar sem frelsi er?