150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga fyrir andsvarið. Það er rétt sem kom fram í máli þingmannsins að lenging á fæðingarorlofinu á þessum tímapunkti var hluti af lífskjarasamningunum. En það er kannski rétt að rifja upp að bæði er talað um þetta í stjórnarsáttmálanum og auk þess er það í stefnu þess stjórnmálaflokks sem ég starfa í og þess vegna er ég mjög sáttur við að fara í tólf mánuði á þessum tímapunkti. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni einnig að skiptingin eins og við lögðum hana fram í breytingartillögunum, sem síðan voru dregnar til baka, var alls ekki þóknanleg aðilum vinnumarkaðarins eða þeim sem gerðu lífskjarasamningana. Meðal annars þess vegna voru þær dregnar til baka og það sett í bráðabirgðaákvæðið að fela ráðherra að skilgreina í kjölfar endurskoðunarvinnunnar nákvæmlega hvernig mánuðirnir skiptast.