150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:33]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann sem hér mælti fyrir máli. Það er ýmislegt í því og það sem truflar er í fyrsta lagi að með þessum breytingum er raunverulega verið að hverfa frá því grundvallaratriði að tólf mánuðirnir séu fastir í frumvarpi og það er komið í bráðabirgðaákvæði. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi raunverulega ekki fundið neina aðra leið en að taka akkúrat það lykilatriði sem búið er að vinna að svo lengi í með samþykkt svo margra aðila og var virkilega fagnað hér í gær og setja það í bráðabirgðaákvæði. Spurningin mín er þessi: Í ljósi alls þessa bix sem verið hefur á málinu og er of langt til að fara í hér, var ekki hugsað um það að bráðabirgðaákvæðið yrði þá afturhvarf ef ráðherra gerði ekkert, tólf mánuðir og fimm, fimm, tveir og síðan væri það nefndarinnar að breyta því? Þá værum við ekki að leggja fyrir þing breytingartillögu með meiri hluta nefndar og væntanlega meiri hluta Alþingis sem gengur algjörlega í berhögg við alla (Forseti hringir.) umræðu um skiptingu og m.a. það sem var síðar samþykkt, tillögu forsætisráðherra í gær.