150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni sérstaklega fyrir að hafa vakið athygli á þessu því að þetta er gríðarlega stórt mál. Það er ekki hægt að afgreiða þetta svona og hæstv. ráðherra kemur hingað upp og reynir að afvegaleiða umræðuna. Hv. þm. Andrés Ingi er búinn að vera mjög heiðarlegur gagnvart þessu, að verja það jafnréttistæki sem íslenska fæðingarorlofið hefur verið til fyrirmyndar um fyrir margar aðrar þjóðir og skilað gríðarlega miklum árangri. Ég er eiginlega algjörlega undrandi á hæstv. ráðherra. Ég bjóst við þegar hann kom hérna upp í andsvar áðan að hann myndi segja: Ég tek undir með hv. þingmanni og ég ætla að fallast á þessa breytingartillögu af því að það er prinsippmál. En það kann að vera að það sé búið að taka jafnréttismálin frá þessu ráðuneyti og setja yfir í forsætisráðuneytið og hann sé ekkert með augað á jafnréttismálunum í þeim tengslum. Þess vegna er ég afar hugsi yfir að ríkisstjórn Vinstri grænna, undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, hæstv. ráðherra, ætli að leyfa þessum vondu skilaboðum að fara í gegn. Við höfum líka ástæðu til að óttast það, ekki síst í ljósi þess hvað gerðist hér í gær og þess að hvert málið á fætur öðru frá hæstv. félagsmálaráðherra er illa undirbúið, kemur seint og það voru allir flokkar sammála um það, meira að segja hluti þingmanna stjórnarinnar, að það hefði mátt vinna ýmis mál betur. Þetta er það sem ég óttast.

Ég tek eindregið undir með hv. þingmanni að það verður að ganga frá þessu af hálfu þingsins, að skilaboð okkar séu skýr. Þekkjandi það að innan stærsta stjórnarflokksins eru menn mjög ósáttir við fimm, fimm, tvo skiptinguna — það þurfti að hafa mikið fyrir því á sínum tíma yfir höfuð að skilyrða skiptingu annars vegar á milli foreldra og síðan valfrelsis — hlýt ég að spyrja hv. þingmann: Hverra erinda telur hann að það sé verið að ganga, því að svona sprettur ekki úr tómarúmi?