150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[12:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott sem kom fram hjá hv. þingmanni að frumvarpið sem hingað kom er bara alveg ágætt. Sú stefna sem ríkisstjórnin lagði hér fyrir þingið, að lengja fæðingarorlof upp í fimm, fimm, tvo, er bara góð. Þess vegna kemur mér svo á óvart að meiri hluti stjórnarflokkanna í velferðarnefnd treysti sér ekki til að standa með þeirri góðu stefnu. Það er sök sér að menn treysti sér ekki til að festa endanlega skiptingu milli foreldra í lög hér og nú. Við höfum hvort eð er ár til stefnu þangað til þetta á að taka gildi af fullum þunga. En að negla inn einhvern vilja löggjafans í bráðabirgðaákvæði á þessum tímapunkti án nokkurra ígrundunar, nokkurrar umræðu, eru mjög undarleg vinnubrögð.

Ég vil helst trúa því að hæstv. félagsmálaráðherra nái að uppfylla alla tímafresti og koma með heildarendurskoðun fæðingarorlofslaganna tímanlega til þingsins næsta haust og við náum að klára það mál með sóma. En eins og kom fram hjá þingmanninum þá vill það oft ekki verða raunin hjá ráðherrum og þá værum við að taka ansi mikinn séns með því að festa eitthvert sjálfvirkniákvæði um lengingu upp í fjóra, fjóra, fjóra í bráðabirgðaákvæði. Ég kann ekki að svara því hverra hagsmuna er verið að gæta með þeirri útfærslu. En eins og ég kom inn á í ræðu minni þá eru það ekki sjónarmið sem koma fram hjá verkalýðshreyfingunni sem ætti þó teljast aðili máls. Það eru ekki sjónarmið sem (Forseti hringir.) koma fram hjá sérfræðingum í jafnréttismálum sem þó skipta máli. Þannig að ég er jafn hugsi yfir þessu og hv. þingmaður.