150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[12:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Já, örstutt til viðbótar um þetta gríðarlega mikilvæga mál. Ég vil taka heils hugar undir þá tillögu sem við ræddum hér áðan í andsvari, sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson leggur fram. Það er margt mjög fínt í þessu frumvarpi og ég er ánægð með að það er sameiginlegur þingvilji, ekki bara ríkisstjórnarinnar heldur okkar allra, að fara í tólf mánaða fæðingarorlof. Við erum öll sammála um að það þýðir ekkert að reyna að snúa út úr því á nokkurn hátt. Það er fagnaðarefni og það er í samræmi við það sem aðilar vinnumarkaðarins hafa kallað eftir og við förum saman í það. Ég nefni hins vegar verklagið og vinnulagið sem hefur verið síðan málið kom inn í þingið og það er augljóst að gamalkunnugar raddir innan t.d. Sjálfstæðisflokksins ráða mjög ríkjum hér varðandi framvinduna. Það þurfti einmitt fyrir 20 árum að hafa fyrir því að menn skildu það að við þyrftum tímabundið á að halda — því að í útópíunni, í draumaveröldinni, viljum við auðvitað hafa tólf mánuði og fólk bara velji það hver fer í fæðingarorlof hverju sinni — meðan við værum ekki búin að ná fullkomnu launajafnrétti, meðan við værum ekki búin að ná jafnrétti á vinnumarkaði og víða annars staðar í samfélaginu, ákveðnum stuðningstækjum, aðhaldstækjum fyrir stjórnvöld og fyrir vinnumarkaðinn og fyrir fyrirtækin, þar til að konur stæðu jafnfætis karlmönnum á vinnumarkaði. Þetta skildu ekki allir á sínum tíma.

En það var sem betur fer líka sterkur hópur innan Sjálfstæðisflokksins sem barðist fyrir þessu. Mér finnst miður að heyra t.d. ekki rödd Péturs heitins Blöndals sem var einlægur stuðningsmaður þessa fyrirkomulags og áttaði sig á þeirri verðmætasköpun sem yrði í gegnum jafnréttismálin. Hann mætti á fundi og talaði um fæðingarorlofið, ekkert endilega sem fjölskyldumál heldur fyrst og fremst sem jafnréttistæki til að stuðla að heilbrigðum vinnumarkaði. Og það eru þessar raddir sem ég sakna að heyra ekki frá þessum stærsta stjórnarflokki. Ég á eftir að sjá að þær öflugu konur sem þar eru innan þingflokks eigi eftir að greiða atkvæði með málinu og með tillögu meiri hluta velferðarnefndar eins og hún lítur út núna því að það gengur í berhögg við allar þær hugsjónir sem við höfum varðandi nálgun í jafnréttismálum og af hverju við skiptum fæðingarorlofinu með þeim hætti sem við gerum núna. Það má alveg spyrja: Af hverju erum við þá ekki að taka þessa tíu mánuði á næsta ári, bara fimm, fimm? Af hverju ekki? Allt í lagi, þetta er millileið, fjórir, fjórir, tveir. En í guðanna bænum stígum ekki það skref að senda út þau skilaboð að við ætlum að hverfa frá því sem var samþykkt í gær. Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson benti réttilega á að þingheimur ætlar, eiginlega yfir nótt, allt að því að skipta um skoðun, breyta um taktík af því að hugsanlega er einhver ólund í stærsta stjórnarflokknum.

Ég vona að hæstv. forsætisráðherra og ráðherra jafnréttismála taki af skarið hér, þess vegna í bakherbergjum, og lagi þetta og segi bara: Nei, hingað og ekki lengra. Kæru vinir í meiri hluta velferðarnefndar, við ætlum ekki að senda þessi skilaboð frá okkur. Það er nauðsynlegt. Það eru ekkert margir tímar til stefnu. Þessi tillaga liggur fyrir, það er hægt að breyta þessu. Ég hvet til þess að það verði gert og ég sé að það eru nokkrir stjórnarmenn í salnum og í hliðarsölum.

Það var rætt um skilaboðin sem færu til endurskoðunarnefndarinnar. Endurskoðunarnefndarinnar bíða vissulega mikilvæg verkefni, að taka tillit til einstæðra foreldra og ýmissa annarra þátta. En skilaboðin mega ekki vera þau að við ætlum að gefa eftir í því að nota fæðingarorlofið sem jafnréttistæki. Það eru skilaboðin sem velferðarnefndin er að senda. Það eru skilaboðin sem meiri hluti velferðarnefndar er að senda inn í endurskoðunarnefndina. Hún er að segja: Vissulega var verið að samþykkja jafnréttisáætlun í gær upp á fimm, fimm, tvo. Aðilar vinnumarkaðarins vilja fimm, fimm, tvo en þið hafið mjög mikið frjálst spil. Þingmenn eiga ekki að vera sporgöngufólk, við eigum að leiða. Við í Viðreisn treystum okkur fullkomlega til að segja: Við viljum ekki fara leið velferðarnefndar. Við viljum fara leið jafnréttis, fara leið réttlætis. Það er ekki sú leið sem meiri hluti velferðarnefndar er að einhverju leyti að marka. Og við megum ekki og höfum ekki efni á því að gefa eftir á þessu stigi máls, eins og ég segi, þó að framtíðarsýnin, draumsýnin, geti vel verið sú að tólf mánuðir verði fæðingarorlofið og foreldrar ráði því hverju sinni hvernig þeir skipta því. Ég held einmitt að mikilvægur vinkill inn í þetta séu greiðslur í fæðingarorlofi. Ég ætla að hrósa ríkisstjórninni fyrir að viðmiðunarmörkin til greiðslna í fæðingarorlofi voru hækkuð. Rannsóknir hafa sýnt að það er ekki síst sá þáttur, greiðslur í fæðingarorlofi, sem hefur áhrif á töku fæðingarorlofs. Ég tel að þegar við erum búin að stíga þessi skref eigum við að forgangsraða aftur þangað. Ég held að það séu mikilvæg skref fyrir okkur að huga að því að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði séu þannig að það séu ekki eingöngu konur sem fari í fæðingarorlof. Af hverju er það? Af því að við erum ekki enn búin að ná launajafnrétti. Aðstæður kvenna eru ekki að jöfnu við aðstæður karla úti á hinum almenna vinnumarkaði

Þetta eru vangaveltur mínar inn í þetta. Það er margt ágætt í þessu en ég saknaði þess áðan — og það kann að vera af því að félagsmálaráðherra er ekki lengur ráðherra jafnréttismála — í þessum útúrsnúningum, sem þetta var að vissu leyti, sem hann kom upp í í andsvari við hv. þm. Andrés Inga Jónsson, að hann segði ekki hér: Já, ég ætla að taka undir þessa breytingartillögu. Breytingartillaga hv. þingmanns stuðlar einmitt að því að við séum vakandi, að við séum á tánum og að við ætlum að vera áfram í forystu þegar kemur að jafnréttismálum. Meiri hluti velferðarnefndar er að reyna að draga úr því að svo verði í framtíðinni og ég ætla ekki að taka þátt í því.